Mynd: Texas A&M University
Mynd: Texas A&M University

Íslenskir vísindamenn fengu mikla viðurkenningu á dögunum þegar Thomson Reuters birti lista yfir 3.000 áhrifamestu vísindamenn heims. Á listanum eru 10 vísindamenn sem starfa á Íslandi, þar á meðal sex starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar, að því er kemur fram í frétt frá Háskóla Íslands.

Á listanum eru nefndir þeir 3.000 vísindamenn sem oftast er vitnað til í vísindagreinum í sinni grein. Listinn var gefinn út í fyrsta sinn í fyrra og voru þá átta vísindamenn sem starfa á Íslandi á listanum. Frá því í fyrra voru það þeir Vilmundur Guðnason, prófessor við Háskóla Íslands og forstöðulæknir Hjartaverndar og Albert Vernon Smith, erfðafræðingur hjá Hjartavernd og gestaprófessor við Háskóla Íslands sem bættust í hópinn.

Hér að neðan má sjá nöfn þeirra vísindamanna sem komust á lista Thomson Reuters auk stuttrar samantektar um þá.

Al­bert Vernon Smith, Hjarta­vernd/Háskóli Íslands
Smith hefur starfað sem erfðafræðingur hjá Hjartavernd frá árinu 2006. Hann starfaði áður hjá Íslenskri erfðagreiningu og sem verkefnastjóri HapMap Data Coordination Center. Rannsóknir Smith eru á sviði erfðatölfræði.

August­ine Kong, Íslensk erfðagrein­ing/Háskóli Íslands
Kong er með doktorsgráðu í tölfræði frá Harvard háskóla og starfaði hjá University of Chicago áður en hann kom til liðs við Íslenska erfðagreiningu árið 1996. Þar gegnir hann stöðu forstöðumanns tölfræðideildar fyrirtækisins.

Bern­h­arð Ö. Páls­son, UCSD/Háskóli Íslands
Bernharð er forstöðumaður kerfislíffræðiseturs Háskóla Íslands. Hann hefur verið frumkvöðull á sviði kerfislíffræði í heiminum og starfað við uppbyggingu kerfislíffræðisetursins hér á landi. Árið 2010 var Bernharð ráðinn til DTU þar sem hann stýrir rannsóknarmiðstöð í líftækni auk starfa sinna hjá Haskóla Íslands.

Daní­el F. Guðbjarts­son, Íslensk erfðagrein­ing/Háskóli Íslands
Daníel starfar sem deildarstjóri tölfræðideildar Íslenskrar erfðagreiningar. Hann er með doktorsgráðu í tölfræði frá Duke háskóla í Bandaríkjunum.

Guðmar Þor­leifs­son, Íslensk erfðagrein­ing
Guðmar lauk doktorsgráðu í háorkueðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2004. Hann tók við starfi sérfræðings í tölfræðideild Íslenskrar erfðagreiningar árið 2000 en hafði áður starfað sem sérfræðingur við University of Syracuse í Bandaríkjunum og við rannsóknir við Bielefed háskóla í Þýskalandi. Hjá Íslenskri erfðagreiningu hefur Guðmar meðal annars unnið að rannsóknum á gláku.

Kári Stef­áns­son, Íslensk erfðagrein­ing/Háskóli Íslands
Kári, er eins og alþjóð veit, stofnandi og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Hann starfaði áður meðal annars sem prófessor við Harvard háskóla og sem forstöðumaður taugasjókdómadeildar Beth Israel sjúkrahússins í Boston. Kári hefur mótað nálgun rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar og er fyrsti höfundur flestra greina sem fyrirtækið birtir.

Þor­steinn Lofts­son, Há­skóli Íslands
Þorsteinn starfar sem prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Hann situr einnig í stjórn Lipid Pharmacuticals og Oculis ehf. Þorsteinn er lyfjafræðingur að mennt og er með mastersgráðu í faginu frá Kaupmannahafnarháskóla auk mastersgráðu og doktorsgráðu í lyfjaefnafræði frá The Universtiy of Kansas.

Unn­ur Þor­steins­dótt­ir, Íslensk erfðagrein­ing/Háskóli Íslands
Unnur er líffræðingur að mennt og lauk doktorsgráður í erfðafræði frá University of British Colombia árið 1997. Hún hefur starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2000 og gegnir nú stöðu forstöðumanns rannsókna hjá fyrirtækinu.

Val­gerður Steinþórs­dótt­ir, Íslensk erfðagrein­ing
Valgerður starfar hjá Íslenskri erfðagreiningu og eru rannsóknir hennar meðal annars á sviði erfða sykursýki.

Vil­mund­ur Guðna­son, Hjarta­vernd/Háskóli Íslands
Vilmundur hefur starfað sem forstöðulæknir Hjartaverndar frá árinu 1999 og sem prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 1997. Sérþekking Vilmundar er á sviði erfðafræði og faraldsfræði hjartasjúkdóma.