
Íslenskir vísindamenn fengu mikla viðurkenningu á dögunum þegar Thomson Reuters birti lista yfir 3.000 áhrifamestu vísindamenn heims. Á listanum eru 10 vísindamenn sem starfa á Íslandi, þar á meðal sex starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar, að því er kemur fram í frétt frá Háskóla Íslands.
Á listanum eru nefndir þeir 3.000 vísindamenn sem oftast er vitnað til í vísindagreinum í sinni grein. Listinn var gefinn út í fyrsta sinn í fyrra og voru þá átta vísindamenn sem starfa á Íslandi á listanum. Frá því í fyrra voru það þeir Vilmundur Guðnason, prófessor við Háskóla Íslands og forstöðulæknir Hjartaverndar og Albert Vernon Smith, erfðafræðingur hjá Hjartavernd og gestaprófessor við Háskóla Íslands sem bættust í hópinn.
Hér að neðan má sjá nöfn þeirra vísindamanna sem komust á lista Thomson Reuters auk stuttrar samantektar um þá.
Albert Vernon Smith, Hjartavernd/Háskóli Íslands
Smith hefur starfað sem erfðafræðingur hjá Hjartavernd frá árinu 2006. Hann starfaði áður hjá Íslenskri erfðagreiningu og sem verkefnastjóri HapMap Data Coordination Center. Rannsóknir Smith eru á sviði erfðatölfræði.
Augustine Kong, Íslensk erfðagreining/Háskóli Íslands
Kong er með doktorsgráðu í tölfræði frá Harvard háskóla og starfaði hjá University of Chicago áður en hann kom til liðs við Íslenska erfðagreiningu árið 1996. Þar gegnir hann stöðu forstöðumanns tölfræðideildar fyrirtækisins.
Bernharð Ö. Pálsson, UCSD/Háskóli Íslands
Bernharð er forstöðumaður kerfislíffræðiseturs Háskóla Íslands. Hann hefur verið frumkvöðull á sviði kerfislíffræði í heiminum og starfað við uppbyggingu kerfislíffræðisetursins hér á landi. Árið 2010 var Bernharð ráðinn til DTU þar sem hann stýrir rannsóknarmiðstöð í líftækni auk starfa sinna hjá Haskóla Íslands.
Daníel F. Guðbjartsson, Íslensk erfðagreining/Háskóli Íslands
Daníel starfar sem deildarstjóri tölfræðideildar Íslenskrar erfðagreiningar. Hann er með doktorsgráðu í tölfræði frá Duke háskóla í Bandaríkjunum.
Guðmar Þorleifsson, Íslensk erfðagreining
Guðmar lauk doktorsgráðu í háorkueðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2004. Hann tók við starfi sérfræðings í tölfræðideild Íslenskrar erfðagreiningar árið 2000 en hafði áður starfað sem sérfræðingur við University of Syracuse í Bandaríkjunum og við rannsóknir við Bielefed háskóla í Þýskalandi. Hjá Íslenskri erfðagreiningu hefur Guðmar meðal annars unnið að rannsóknum á gláku.
Kári Stefánsson, Íslensk erfðagreining/Háskóli Íslands
Kári, er eins og alþjóð veit, stofnandi og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Hann starfaði áður meðal annars sem prófessor við Harvard háskóla og sem forstöðumaður taugasjókdómadeildar Beth Israel sjúkrahússins í Boston. Kári hefur mótað nálgun rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar og er fyrsti höfundur flestra greina sem fyrirtækið birtir.
Þorsteinn Loftsson, Háskóli Íslands
Þorsteinn starfar sem prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Hann situr einnig í stjórn Lipid Pharmacuticals og Oculis ehf. Þorsteinn er lyfjafræðingur að mennt og er með mastersgráðu í faginu frá Kaupmannahafnarháskóla auk mastersgráðu og doktorsgráðu í lyfjaefnafræði frá The Universtiy of Kansas.
Unnur Þorsteinsdóttir, Íslensk erfðagreining/Háskóli Íslands
Unnur er líffræðingur að mennt og lauk doktorsgráður í erfðafræði frá University of British Colombia árið 1997. Hún hefur starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2000 og gegnir nú stöðu forstöðumanns rannsókna hjá fyrirtækinu.
Valgerður Steinþórsdóttir, Íslensk erfðagreining
Valgerður starfar hjá Íslenskri erfðagreiningu og eru rannsóknir hennar meðal annars á sviði erfða sykursýki.
Vilmundur Guðnason, Hjartavernd/Háskóli Íslands
Vilmundur hefur starfað sem forstöðulæknir Hjartaverndar frá árinu 1999 og sem prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 1997. Sérþekking Vilmundar er á sviði erfðafræði og faraldsfræði hjartasjúkdóma.