psychologybanner

Í rannsóknum notast vísindamenn við vísindalega aðferð, meðal annars til að ganga úr skugga um að sama niðurstaða fáist sé rannsóknin endurtekin. Því miður er það ekki alltaf svo eins og kom í ljós þegar 100 sálfræðirannsóknir voru endurteknar í þeim tilgangi að sannreyna þær.

Í rannsókninni, The Reproducibility Project, voru 100 rannsóknir sem birtar voru í þremur virtum sálfræðitímaritum endurteknar. Það voru rannsóknarsálfræðingar sem framkvæmdu endurteknu rannsóknirnar og unnu margir þeirra sjálfboðavinnu til að sannreyna niðurstöðurnar. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Science á dögunum og voru því miður síður en svo jákvæðar fyrir vísindasamfélagið.

Í ljós kom að aðeins tæpur helmingur rannsóknanna skiluðu sömu niðurstöðum og upprunalega rannsóknin. Niðurstöðurnar eru eðlilega áfall fyrir vísindasamfélagið í heild sinni enda var um að ræða rannsóknir sem eru hluti af grundvallar þekkingu sem vísindmenn hafa notað til að skilja persónuleika, sambönd, lærdóm og minni.

Meðal rannsóknanna sem ekki stóðust endurtekninguna voru rannsóknir um frjálsan vilja, áhrifa líkamlegrar fjarlægðar á tilfinningalega nánd og rannsókn um makaval kvenna.

Á niðurstöðum rannsóknarinnar, sem hófst árið 2011, er ljóst að aðgerða er þörf enda nokkuð víst að svipaða sögu sé að segja innan annarra geira.