Mynd: Science
Mynd: Science

Tímaritið Tumor Biology hefur dregið til baka 107 vísindagrenar sem voru samþykktar til birtingar á árunum 2012-2016. Ástæðan er sú að ritstjórn blaðsins telur að ekki hafi verið staðið rétt að þegar greinarnar voru ritrýndar af öðrum vísindamönnum.

Þegar vísindahópur vill fá grein birta í vísindariti þarf greinin fyrst að vera yfirfarin af sérfræðingi á sama sviði. Innan vísindasamfélagsins gildir samkomulag um að fólk les yfir greinar frá hinum ýmsu vísindaritum og leggur mat á störf kollega sinna víðs vegar um heiminn. Þar sem að ritrýnandinn þarf að vita þó nokkuð um sérsviðið sem hann er að gagnrýna er algengt að höfundar greinanna benda á heppilegan einstakling í verkið.

Í sumum tilfellum er þetta frelsi vísindahópa til að velja ritrýnendur misnotað. Vísindaritið fær þá nöfn þekktra vísindamanna en netföng viðkomandi er ekki endilega rétt heldur er greinin send aftur til sinna upprunalegu rannsakenda eða einhverra þeim náinn. Þetta auðveldar til muna birtingaferlið þar sem umsögnin um greinina er yfirleitt stórgóð og hún því birt í góðri trú.

Til að flækja málin enn frekar er það ekki endilega vísindahópurinn sjálfur sem stendur fyrir þessum svikum. Það vill þannig til að flestar þessara 107 greina sem ekki fæst lengur aðgangur að í Tumor Biology eru frá kínverskum rannsóknarhópum. Rannsóknarhópar frá Kína senda greinarnar sínar gjarnan til fyrirtækja sem sjá um að þýða greinina yfir á fallega og góða ensku áður en hún er send á vísindaritið. Þessi fyrirtæki taka sér síðan oft bessaleyfi til að ráðskast með ritrýnendur greinanna, til að auka líkurnar á birtingu.

Það er því ekki alltaf við rannsóknarhópinn að sakast, þar sem þriðji aðili, sem veitir rannsóknarhópnum þjónustu í tungumálum tekur völdin í sínar hendur. Þó birtingar í virtum tímaritum sé hinn raunverulegi gjaldmiðill vísindamanna þá getur ein grein sem dregin er í efa á þennan hátt eyðilagt fyrir sama vísindahóp allar aðrar birtingar.

Allt sem þessir vísindamenn og konur taka sér fyrir hendur héðan af verður dregið í efa vegna þess að grein á þeirra vegum var ekki birt byggt á heilindum vísindastarfsins. Það er því sannarlega bjarnargreiði sem þýðingarfyrirtækin hafa gert fjölmörgum kínverskum vísindamönnum með þessu móti.