alien-02

Vísindamenn NASA telja að stutt sé í að líf finnist annars staðar en á jörðinni, samkvæmt frétt space.com.

Vísindamaður NASA, Ellen Stofan, sagði þann 7. apríl að innan áratugar muni NASA finna sterkar vísbendingar um líf á öðrum hnöttum og sannanir fyrir því á næstu 20-30 árum. Hún sagði einnig að NASA hefði nú þegar tæknina til að finna líf á öðrum hnöttum og vissi hvar og hvernig ætti að leita.

Nú þegar hefur NASA fundið ýmislegt sem bendir til þess að líf þrífist á öðrum stöðum en á jörðinni. Sem dæmi má nefna að undir yfirborði tveggja tungla Júpíters, Europa og Ganymede er að finna vatn í vökvaformi. Á plánetunni Mars hefur marsjeppinn Curiosity fundið lífrænar sameindir og nítröt sem bendir til þess að líf gæti hafa þrifist þar á einhverjum tímapunkti. Auk þess benda niðurstöður NASA til þess að vatn hafi eitt sinn verið til staðar á Mars.

NASA hyggst einbeita sér að því að finna líf á öðrum plánetum og er stefnt að því að næsti marsjeppi fari af stað árið 2020. Þessi nýji jeppi mun vera sérhannaður til að leita að lífi og vísbendingum um að það hafi verið til staðar.

Hægt er að horfa á pallborðsumræður NASA um líf á öðrum hnöttum í myndbandinu hér að neðan.