Öll hegðum við okkur mismunandi á Facebook. Sumir tjá skoðanir sínar á stjórnmálum, aðrir gorta sig af ræktarferðum og enn aðrir af ástarsamböndum sínum. Í nýrri rannsókn var hegðun fólks á Facebook einmitt skoðuð og sýndi hún meðal annars fram á að þeir sem hafa lágt sjálfsálit setja inn fleiri færslur um ástarsambönd sín en aðrir.
Rannsóknin er ein sú fyrsta sem skoðar það af hverju fólk deilir ákveðnum upplýsingum á samfélagsmiðlum og hvernig viðbrögðin sem það fær hefur áhrif á það hvernig þeim líður.
Að sögn Tara Marshall við Brunel háskóla í London upplifa þeir sem fá fleiri „like“ og ummæli félagslega viðurkenningu en þeir sem fá ekki jafnmikil viðbrögð upplifa neikvæðar tilfinningar. Þær upplýsingar sem fólk deilir á Facebook endurspegla einnig persónueinkenni viðkomandi. Það kemur kannski ekki á óvart að í öllum tilfellum erum við á einhvern hátt að reyna að fullnægja sjálfsást okkar með Facebook færslunum sem við birtum.
Í rannsókninni voru 555 notendur Facebook beðnir um að taka persónuleikpróf sem mælir persónueinkennin: úthverfu, geðrænt jafnvægi, siðfágun, viðfelldni og samviskusemi, auk sjálfsálits og tilhneigingar til að sýna sjáfselska hegðun. Þátttakendur voru auk þess beðnir um að segja frá því hversu oft þeir deildu upplýsingum á Facebook og um hvað færslur þeirra fjölluðu. Rannsóknarhópurinn skoðaði síðan hvaða notendur fengu flest „like“ og ummæli.
Helstu niðurstöður rannsóknarhópsins voru eftirfarandi:
- Einstaklingar með lágt sjálfsálit settu oftast inn færslur um maka sinn.
- Sjálfselskir deildu oftast færslum um afrek sín í þeim tilgangi að fá athygli og viðurkenningu. Þessar færslur fengu flest „like“ og ummæli sem er talið ýta undir hegðunina.
- Sjálfselskir einstaklingar deildu einnig oftast færslum um mataræði og líkamsrækt sem bendir til þess að þeir noti Facebook til að koma því á framfæri hversu mikið þeir leggja á sig til að líta vel út.
- Þeir samviskusömu deildu flestum færslum um börnin sín.
Marshall bendir á að það að vera meðvitaður um það hvernig aðrir upplifa færslur á samfélagsmiðlum gæti hjálpað fólki að forðast það að setja inn færslur sem fara í taugarnar á öðrum notendum. Hún segir einnig að það sé mögulegt að fólk líki við og skilji eftir ummæli við færslur til að sýna kurteisi en sé í raun ekki hrifið af færslum sjálfselskra einstaklinga.
Næstu skref rannsóknarhópsins eru að skoða hvernig viðbrögð efni færsla fá og hvernig þær hafa áhrif á hversu vel fólki líkar við manneskjuna sem deildi þeim, bæði á internetinu og í daglegu lífi.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í Personality and Individual Differences.