009_nefertiti-et-akhenaton_theredlist

Margir þekkja Nefertiti, fyrrum drottningu Egyptalands. Nefertiti var gift faróanum Akhenaten og ríktu þau saman yfir Egyptalandi um 1370-1330 fyrir Krist. Samkvæmt frétt The Guardian telja fornleifafræðingar að gröf hennar sé mögulega fundin í grafhýsi Tutankhamun, sonar Akhenaten.

Það er Dr. Nicholas Reeves sem á heiðurinn af hugmyndinni eftir að hafa grandskoða veggi grafhýsis Tutankamuns með þar til gerðum skönnum. Að hans sögn má greina tvo falda innganga í veggjum þess hluta grafhýsisins þar sem Tutankamun er grafinn. Annar inngangurinn virtðist leiða að geymslu en Dr. Reeves telur að hinn gæti verið gangvegur að grafhýsi Nefertiti.

Fornleifafræðingar hafa lengi velt því fyrir sér hvers vegna grafhýsi Tutankamun sé eins lítið og raun ber vitni en það er ekki aðeins óvenju lítið fyrir faró heldur er það einnig óvenjulegt í lögun. Í rauninni virðist grafhýsi hans fremur vera forherbergi en grafhýsi konungs. Dr. Reeves telur að ástæðan gæti verið að grafhýsi Tutankamuns hafi verið byggt sem framlenging af grafhýsi Nefertiti.

Tíminn mun leiða í ljós hvort rétt reynist en ef svo er má ætla að grafhýsi Nefertiti verði enn glæsilegra en grafhýsi Tutankamun.