Mynd: UNSW Australia
Mynd: UNSW Australia

Geimurinn er ekki sérlega viðkunnalegur staður fyrir jarðarbúa, þ.e.a.s. aðstæður þar henta okkur sem byggjum þessa jörð ekki vel. Þar er hitastig mjög fráburgðið því sem finnst hér á jörðinni og efnin sem fylla geiminn eru langt frá því að vera svipuð og þau sem fylla andrúmsloftið. Auk þess sem magn geisla og styrkur þeirra er ekki sambærilegur við það sem við finnum á jörðinni. Það er nú einmitt þess vegna sem við jarðarbúar búum hér en ekki á einhverri annarri plánetu.

En til að vernda jörðina okkar fyrir grimmum aðstæðum geimsins er jörðin sveipuð lotfhjúp sem við köllum í daglegu tali andrúmsloft. Lofthjúpnum má skipta í nokkur lög sem hvert um sig hefur sitt hlutverk. Við vitum að hvert lag fyrir sig gegnir þýðingarmiklu hlutverki en þrátt fyrir það er vitneskja okkar um lögin ekki sérlega djúp.

Til að kippa þessari fáfræði okkar í liðinn hafa vísindahópar frá 28 löndum ákveðið að taka höndum saman og munu í lok þessa árs senda 50 lítil gervitungl að ystu lögum andrúmslofsins til að safna þaðan gögnum. Gervitunglin eru pínulítil en þau vega ekki nema 2 kíló og er endingartími þeirra úti í geimnum ekki nema um eitt ár.

Gervitunglin verða þó ekki send að lofthjúpnum frá jörðinni heldur frá ISS eða The International Space Station. Kostnaðurinn við þessa aðgerð er eins og gefur að skilja nokkuð mikill en þar sem 28 lönd dreifa honum sín á milli gerir það hópunum kleift að senda 50 gervitungl sem geta safnað 50 gagnasöfnum í stað þess að senda bara eitt eða tvö. Það þýðir að gagnasöfnunin mun a.ö.l. gefa okkur miklu meiri upplýsingar og minni skekkjur en annars.

Eins og áður segir verða gervitunglin send af stað í lok 2016 og í janúar 2017 hefja þau vonandi gagnasöfnun sína sem felst m.a. í greiningu á þeim efnum og efnahvörfum sem eiga sér stað í lofthjúpnum. Eftir 3-9 mánuði mun gagnasöfnun svo ljúka en eftir það munu þessir litlu gervihnettir brenna upp í geimnum.

Það verður spennandi að fylgjast með hvaða upplýsingar fást úr þessu verkefni og hvernig við getum nýtt þær okkur í hag í framtíðinni.