glass-of-water

Hver kannast ekki við ráðleggingar um að drekka skuli átta vatnsglös á dag til líkaminn haldist heilbrigður? Þetta er algeng ráðlegging en er einhver vísindalegur grundvöllur fyrir henni? Ekki samkvæmt barnlækninum Aaron E. Caroll við háskólann í Indiana.

Caroll er einn höfundur greinar þar sem algengar mýtur sem varða heilsu manna eru hraktar. Meðal þeirra er mýtan um að við þurfum að drekka átta vatnsglös eða alls 1,9 lítra á dag. Málið er Caroll greinilega hugleikið en hann brá á það ráð að skrifa grein um það sem birt var á vefsíðu New York Times í vikunni.

Í greininni segir Caroll meðal annars að þrátt fyrir þau fyrirmæli sem fólk fær um vatnsdrykkju eru engar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að það að drekka svo mikið vatn hafi jákvæð áhrif á heilbrigða einstaklinga. Til dæmis hefur vísindamönnum ekki tekist að sýna fram á að vatnsdrykkja bæti ásýnd húðar sem margir virðast telja vera staðreynd.

Caroll bendir einnig á það í greininni að vatn sé ekki eina leiðin til að taka inn vökva og ekki sé nauðsynlegt að fá vatn úr drykkjum einum saman. Hann mælir þó með vatni framyfir aðra drykki.

Vert er að taka fram að hér er verið að tala um heilbrigða einstaklingar sem lifa nokkuð rólegu lífi og við loftslag sem er laust við öfgar í hitastigi. Þeir sem til dæmis lifa í heitu loftslagi, stunda mikla líkamsrækt eða glíma við ákveðna sjúkdóma gætu að sjálfsögðu þurft átta vatnsglös á dag, jafnvel meira.

Þó svo að ekkert bendi til þess að nauðsynlegt sé að drekka átta vatnsglös á dag sakar það ekki. Þeim sem hefur hingað til þótt það kvöl að drekka allt þetta vatn á einum degi gleðjast þó væntanlega yfir þessum fréttum.