heterchromia

Fyrirtæki í Kaliforníu, Stroma Medical, heldur því fram að það geti breytt augnlit fólks úr brúnum í bláan. Þeir hafa að eigin sögn nú þegar breytt augnlit 37 einstaklinga í Mexíkó og Kosta Ríka. Aðferðin hefur enn ekki verið samþykkt í Bandaríkjunum og Evrópu en áætlað er að hún komi til með að kosta um 700.000 krónur.

Aðferðin byggist á því að brún augu séu í raun öll blá undir brúna laginu. Aðgerðin tekur einungis um 20 sekúndur og er sögð virka þannig að þunnt lag af litarefni á yfirborði brúnna augna er rofið. Blái liturinn kemur þó ekki strax í ljós heldur tekur það nokkrar vikur þar til brúna lagið hverfur alveg. Við það að fjarlægja brúna lag augnanna getur ljós borist inn í uppistöðuvef augnanna og þegar ljósið dreifst endurspeglar það einungis stystu bylgjurnar, sem eru einmitt á blá enda litrófsins og augun sýnast blá.

Þó svo að það hljómi kannski spennandi að geta breytt augnlit sínum er enn óljóst hvaða áhrif aðgerðin hefur til lengri tíma og hversu örugg hún er í raun og veru. Til dæmis hefur verið bent á að aðferðin gæti aukið þrýsting í augunum sem eykur hugsanlega líkur á því að þeir sem hafa gengist undir litabreytinguna fái gláku seinna á lífsleiðinni.

Hér, má lesa umfjöllun Time um málið.