Sad girl

Þeir sem hafa fylgst með fréttaflutningi á Íslandi vita að fátækt hefur aukist mikið eftir efnahagshrunið 2008. Því miður er mikið af þeim fjölskyldum sem lifa við fátækramörk barnafjölskyldur þar sem fátæktin bitnar verst á börnunum. Ný rannsókn bendir til að aðstæður sem þessar geta haft áhrif á þroskun heilans í börnum og því haft varanlegri áhrif á einstaklinga en áður var talið.

Rannsóknir þessa efnis hafa verið birtar í JAMA pediatrics, sjá hér og hér. Margt bendir þó til þess að hægt sé að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar með réttri umhyggju fyrir börnin. Þess vegna hefur barnasálfræðingurinn Joan L. Luby mælst til þess að heilbrigðiskerfið grípi inní og haldi foreldranámskeið fyrir verðandi foreldra.

Rannsóknirnar sem hér um ræðir hafa verið framkvæmdar í bandarísku samfélagi svo þær eru ekki að fullu sambærilegar við íslenskt samfélag, þar sem fátækt í Bandaríkjunum er oft svo rótgróin milli kynslóða. Fátækt í þessu samfélagi leiðir oft til lakari grunnskólamenntunar og samfélagið virðist ekki hafa tök á því að kenna börnum eiginlega lífsleikni. Þrátt fyrir það er mikilvægt að hafa varann á og passa uppá að leiðast ekki í sömu gildru, við þurfum að halda utan um börn sem alast upp í fátækt og passa uppá að allir hafi sömu tækifæri í lífinu til að þroska með sér sína einstöku hæfileika.