Mynd: Parent Society
Mynd: Parent Society

ADHD stendur fyrir Attention-deficit/hyperactivity disorder sem þýðist á íslensku athyglisbrestur með ofvirkni. Einstaklingar sem eru með ADHD eiga erfitt með að einbeita sér eru hvatvísir og eru mun virkari en aðrir einstaklingar eða það sem í gamla daga kallaðist óþægðargemlingur. Í dag höfum við mun betri skýringar á því hvers vegna einstaklingar með ADHD eiga svona erfitt með að sitja kyrrir og einbeita sér, allavega nægilega mikla þekkingu til að hafa umburðalyndi fyrir því og reyna að veita þessum einstaklingum meðferð, þó að orsakir ADHD séu enn ekki fullkomlega skilgreindar.

Þeir sem greinast með ADHD í barnæsku mega eiga von á því að glíma við röskunina alla ævi. Nýlegar rannsóknir gefa nú til kynna að fullorðnir einstaklingar með ADHD gætu líka hafa þróað röskunina með sér eftir að barnæsku lauk. Þessar niðurstöður breyta að miklu leiti sýn okkar á ADHD þar sem hingað til hafa sérfræðingar litið svo á að ADHD komi til snemma á lífsleiðinni.

Tvær rannsóknir þessa efnis birtust í JAMA Psychiatry í gær, önnur þeirra unnin á bresku þýði en hin var framkvæmd í Brasilíu. Báðar rannsóknirnar styðja einnig nýsjálenska rannsókn um sama efni. Í bresku rannsókninni eru um 2200 tvíburar undir smásjánni. Fylgst er með þeim frá unga aldri og fjórum sinnum á æskuárunum eru börnin metin með tilliti til ADHD af foreldrum sínum eða kennurum, þ.e. á aldrinum 5, 7, 10 og 12 ára. Þegar þátttakendur höfðu svo náð 18 ára aldri voru þau enn á ný metin en þá voru það þau sjálf sem sáu um matið.

Í ljós kom að u.þ.b. 5% einstaklinganna sem talað var við greindist með ADHD á fullorðinsárum án þess að hafa greinst með það fyrr. Þetta bendir til þess að fullorðnir einstaklingar geta þróað með sér ADHD án þess að hafa fundið fyrir nokkru slíku í barnæsku. ADHD sem einungis greinist á fullorðinsárum virðist ekki erfast þar sem tvíburar einstaklinga með ADHD voru ekki líklegri til að greinast sjálfir, en ADHD í æsku hefur sterkari erfðafræðilega tengingu.

Þessar niðurstöður benda til þess að hér sé um tvenns konar raskanir að ræða sem báðar hafa sömu sýndina. Auðvitað getur ástæðan einnig verið vangreining eða að umhverfi einstaklingana í æsku hafi verið verndandi gegn röskuninni. Hver sem ástæðan er þá breyta þessar niðurstöður því hvernig fullorðnir einstaklingar með ADHD einkenni eru meðhöndlaðir. Að auki gæti frekari rannsóknir á þessu sviðið varpað ljósi á orsakir þess að ADHD kemur fram, hvort sem er í æsku eða á fullorðinsárum.