Mynd: Gold in the Road
Mynd: Gold in the Road

Flestir ef ekki allir muna eftir að hafa á einhverjum tímapunkti í æsku sinni verið hræddir við myrkrið. Það er kannski ekki myrkrið sjálft sem hræðir mann heldur það sem gæti mögulega búið í því og þegar sjónin er ekki til að hjálpa manni þá getur þetta sem mögulega býr í myrkrinu snögglega breyst í hræðileg skrímsli sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. En hvers vegna er hræðsla við myrkur jafnalgeng og raun ber vitni?

Margir fræðimenn telja að þessi órökstuddi ótti við myrkrið sé það sem í raun hélt okkur á lífi meðan menn bjuggu enn útí náttúrunni og höfðu ekki fundið upp svo mikið sem tæki til að veiða, hvað þá hús til að búa í. Á þeim tíma voru mörg rándýr á ferli sem mannskepnan þurfti að varast. Snjöllustu rándýrin veiða líka um nætur af góðri og gildri ástæðu, þá hvílist bráðin og auðvelt getur verið að ná henni.

Þess vegna var mjög mikilvægt fyrir okkur að vera á tánum þegar myrkrið skall á. Óttinn við myrkrið er ekki lamandi ofsahræðsla heldur er hann vægur og einmitt til þess gerður að undirbúa líkamann undir að annað hvort flýja eða berjast. Þegar myrkrið skellur á og við finnum óttann læðast að okkur þá þenjum við skynfærin og því miður sjáum stundum draug í hverju horni. En forfeður okkar sáu ekki drauga heldur rándýr og í mörgum tilfellum hefur óttinn leitt til þess að rándýrin höfðu ekki alltaf betur í eltingaleiknum.

Það er því sennilegt að hræðsla sé í raun mikilvægt þróunarlegt tæki til að halda lífi í tegundinni. Næst þegar þið upplifið þessa hræðslu þá getið þið verið ánægð með hversu vel hún hefur skilað mannskepnunni inní nútímann.

Heimild: ScienceAlert