Mynd: Causes of Color
Mynd: Causes of Color

Flestir hafa séð flamingo-fugla í myndum eða teiknimyndum þar sem þeir hvílast á einum fæti. Ef lesendur eru eitthvað eins og sú sem hér skrifar hafa þeir eflaust velt því fyrir sér hver ástæðan er. Það virðist nefnilega vera mjög þreytandi að standa á einum fæti til lengri tíma.

Þegar manneskja stendur á einum fæti kostar það líkamann gríðarlega orku að spenna alla þá vöðva sem til þarf svo jafnvægið haldist. Þetta á þó ekki við um flamingo-fugla. Eins og talað er um í rannsókn sem birtist í Biology Letters er það í raun hin fullkomna hvíld fyrir fuglinn að standa á einum fæti.

Í rannsókninni sá rannsóknarhópurinn að flamingo-fuglar gátu staðið á einum fæti, jafnvel eftir að þeir höfðu dáið. Það virkaði hins vegar ekki jafn vel ef líkamar dauðu fuglana voru látnir standa á tveimur fótum. Það að dauður fugl geti staðið á einum fæti bendir til þess að engin líffræði liggi þar að baki, heldur einungis eðlisfræði.

Þegar rannsóknarhópurinn fylgdist svo með lifandi fuglahópum kom í ljós að þegar þeir hvíldust á einum fæti var enginn halli á líkama þeirra, sem bendir einnig til þess að engin vöðvaspenna sé til staðar. Hins vegar hallaði líkaminn þegar fuglarnir voru t.d. á varðbergi eða á annan hátt ekki í hvíld.

Þar höfum við það, það kostar fuglinn sennilega enga orku að standa á einum fæti. Þessi skemmtilega stelling er s.s. ekki tilkominn vegna þess að flamingo-fuglar hafa einstaklega gaman af því að monta sig af jafnvægislist sinni.