Mynd: NCH
Mynd: NCH

Átraskanir geta verið margvíslegar og er sú þekktasta þeirra sennilega anorexía sem lýsir sér í sífelldu svelti einstaklings. Anorexía flokkast sem geðsjúkdómur enda reyna þeir einstaklingar sem þessum kvilla eru haldnir að sleppa því að borða, ástand sem getur orðið svo alvarlegt að líffæri viðkomandi hætta að starfa og hann eða hún deyr.

Nýlega var birt grein í tímaritinu Medical Hypotheses þar sem nýjar hugmyndir um anorexíu og orsök hennar eru settar fram. Höfundar greinarinnar telja að anorexía sé ekki einungis geðsjúkdómur heldur megi í raun rekja hann til truflunar á örveruflórunni, eða ójafnvægis í bakteríum líkamans. Reyndar segir hópurinn að fleiri sjúkdómar séu af sama meiði og nefna þar síþreytu og iðrarbólgu.

Þar sem tíðni sjúkdómanna og útbreiðsla þeirra er ekki ósvipuð því sem sést í sjálfsónæmissjúkdómum þá leggur hópurinn til að það sé einmitt það sem er að gerast, ónæmiskerfið er að ráðast á eigin líkama. Byrjunin á því getur verið sýking eða einhvers konar ójafnvægi í örveruflórunni, mögulega er þar um að ræða einhvern sérstakan stofn baktería sem örvar ónæmiskerfið og það fer að ráðast á taugakerfið.

Í tilfellum bæði síþreytu og iðrarbólgu eru veikindi eða sýkingar oft upphafið af sjúkdómnum svo það styður tilgátu hópsins. Hópurinn telur líklegt að það sama eigi sér stað í tilfellum anorexíu og að þá sé svar ónæmiskerfisins bundið við taugakerfið.

Þessar tilgátur eru mjög áhugaverðar og ef rétt reynist þá geta slíkar uppgötvanir haft stórvægileg áhrif á það hvernig anorexía er meðhöndluð. Það er þó mjög líklegt að hér spila fleiri þættir inní sem einnig verður að hafa í huga við meðferð sjúklinga. Það verður spennandi að fylgjast með hvort hægt verður að styðja tilgátur vísindahópsins frá Lancaster University með frekari tilraunum.