Nánast síðan reykingatóbakið var fundið upp höfum við leitað leiða til að hjálpa fólki að hætta að nota það. Áhrif nikótínsins eru mjög ávanabindandi og því getur það reynst fólki mjög erfitt að hætta, þegar fólk hefur á annað borð ákveðið að nú sé komið gott.

Fjölmörg hjálpartæki

Margar leiðir hafa verið nýttar til að koma nikótíni inn í líkamann, án þess að það gerist með bruna á tóbaki. Má þar nefna tyggjó og plástra en auk þess hafa aðrar leiðir hafa verið prófaðar. Sú nýjasta er sennilega rafrettur eða það sem yfirleitt er kallað veip í daglegu tali.

Þó tyggjó og plástrar hafi virkað vel sem nikótínstaðgengill þá upplifir reykingafólk oft þörf til að hafa eitthvað á milli handanna, í bókstaflegum skilningi, meðan það tekur þátt í félagslegum viðburðum.

Rafrettur eða veip

Rafrettur taka ekki einungis á níkótínþörf þeirra sem það nota heldur hefur það einnig áhrif á félagslegu hlið reykinganna. Það getur nefnilega verið mjög erfitt að losna undan þeim vana sem fylgir því að reykja, standa með ákveðnum hópi fólks og taka þátt í umræðum dagsins.

Veipið er tiltölulega nýtilkomið og upphaflega var það einungis hugsað sem hjálpartæki fyrir þá sem hugðust hætta reykingum. Við fyrstu sýn virðast rafrettur henta vel til að hjálpa fólki að hætta að nota sígarettur enda hafa dæmin sannað að einstaklingum líður oft mun betur eftir að sígarettunni er sleppt.

Hinn leiði fylgikvilli rafrettanna er þó sorglegur raunveruleiki. Alveg eins og sígarettur gerðu á sínum tíma þá eru rafrettur líka tískufyrirbrigði hjá ungu fólki. Margir, sem aldrei hafa reykt, nota rafrettur af miklum móð til að fylla upp í áunna fíkn sína fyrir nikótíni.

Er gufa betri en reykur?

Vegna þess hve veipið er mikil nýlunda höfum við enn ekki mörg gögn í höndunum sem staðfesta öryggi rafrettanna. Það liggur einhvern veginn beint við að telja rafrettur skárri kost en hefðbundnar sígarettur. Í fyrsta lagi fylgir þeim enginn bruni og hin kvimleiða reykingalykt sem við þekkjum flest og tengjum við reykingar er á bak og burt.

Þvert á það sem okkur finnst eðlilegt er jafnvel eftirsóknarvert að standa í gufunni frá veipinu því henni fylgir oft ilmur af einhverju sem okkur þykir gott, s.s. vanillu, súkkulaði, jarðaberjum eða jafnvel nammi. En eiturefni eru ekki alltaf augljós og þó rafrettur virðist við fyrstu sýn vera betri en sígarettur þá er ekki endilega hægt að staðfesta að svo sé.

Bragðefni í rafrettum geta verið hættuleg

Rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar í frumuræktunum hafa sýnt að bragðefnin í rafrettunum eru ekki með öllu skaðlaus. Efnin sem notuð eru til að gefa gufunni bragð eru yfirleitt efni sem við notum nú þegar í matvælin okkar. Þau hafa þess vegna fengið stimpil frá eftirlitsstofnunum sem passa uppá að matvælaframleiðendur setji ekki hættuleg efni í matvæli sem komast inní líkama okkar í gegnum meltingarveginn.

Það sama gildi þó kannski ekkert endilega um öndunarfærin. Þó eitthvað efni valdi ekki skaða þegar við borðum það er ekki gefið að það sé góð hugmynd að anda því að sér. Reyndar hafa þó nokkrar rannsóknir sýnt að það er alls ekki góð hugmynd.

Bragðefni í rafrettum hafa verið tengd við aukið bólgusvar í lungnavef sem getur leitt öndunarerfiðleika. Þessi áhrif sjást í tilraunum sem gerðar eru á mannafrumum í frumurækt.

Veip tengt við öndunarerfiðleika

Ný bandarísk rannsókn, sem var birt í vísindaritinu Tobacco Control í febrúar gefur til kynna að rafrettunotendur séu líklegri til að upplifa öndunarerfiðleika, samanborið við þá sem hvorki reykja né veipa.

Rannsóknin var byggð á spurningalista sem var sendur til rúmlega 28 þúsund þátttakenda. Sjálfboðaliðar sem tóku þátt svöruðu spurningum varðandi t.d. þjóðfélagsstöðu, heilsufar og notkun á sígarettum eða rafrettum.

Við greiningu á spurningalistanum kom í ljós að þeir sem notuðu rafrettur voru nær tvöfalt líklegri til að upplifa öndunarerfiðleika, s.s. þrengslu í öndunarvegi, en þeir sem ekki neyttu tóbaks. Þess ber að geta að enginn munur fannst á milli þeirra sem reyktu og þeirra sem veipuðu.

Veip ekki endilega verra en að reykja

Af þeim sem tóku þátt í könnuninni og notuðu rafrettur hafði þriðjungur ekki notað rafrettuna til að hætta að reykja. Þátttakendur voru ekki beðnir um að meta lífstíl sinn með tilliti til matarræðis eða hreyfingar, þó þau hafi verið beðin um að leggja mat á eigið hreysti.

Það er því ljóst að af þessari rannsókn er ekki hægt að draga upp skýrt orsakasamhengi milli rafretta og öndunarerfiðleika. Þessi rannsókn gefur þó vísbendingar um hvernig þau líffræðilegu viðbrögð sem þegar hafa mælst í mannafrumum í frumurækt geta komið fram í líkama okkar.

Það er ekki hægt að líta framhjá þeim staðreyndum að rafrettur geta líka haft jákvæð áhrif. Þær hafa nýst reykingamönnum sem hjálpartæki við að hætta að reykja, sem verður að teljast jákvætt. Hins vegar er ekki víst að þau jákvæðu áhrif núlli út neikvæð áhrif sem fólk verður fyrir við notkun á rafrettum.

Regluverk í kringum rafrettur er nauðsynlegt

Mánaðamótin febrúar/mars tóku gildi reglugerðir hér á Íslandi sem eiga að koma í veg fyrir óhefta sölu rafretta og sölu til barna undir 18 ára aldri. Reglugerðin tekur mið af því hvernig farið er með sölu tóbaks í verslunum en einnig af því hvernig aðrar þjóðir hafa brugðist við aukinni notkun rafretta.

Af þessum niðurstöðum má sjá að regluverk í kringum rafrettunotkun og sölu er jafn nauðsynlegt og regluverk í kringum hefðbundið tóbak. Neikvæð áhrif þess að veipa ættu nefnilega ekki að vera litin léttvægum augum, sér í lagi þegar horft er til unglinga sem enn eru að þroskast.

Þó enn eigi eftir að skera endanlega úr um nettó áhrif rafretta þá er að minnsta kosti augljóst að fólk sem aldrei hefur reykt ætti ekki að nota rafrettur. Nikótínfíkn er nefnilega ekki nauðsynleg fyrir okkur og þess vegna best að sneiða algjörlega hjá henni.

Greining birtist fyrst í prentuðu eintaki og vefsíðu Stundarinnar.