Einhverra hluta vegna er hver einasta kynslóð sem lifir á þessari jörðu, latari og að nánast öllu leiti verri en sú sem á undan fer, þ.e. að mati þeirra síðarnefndu. Eitt af því sem gerir ungu kynslóðir dagsins í dag að „letihaugum“ er tilkoma tölvuleikja. Tölvuleikir hvetja ekki einungis til leti heldur mata þeir spilarann einnig á upplýsingum um heiminn sem ekki passa inní okkar nútímasamfélag.

Það er reyndar ekki alltaf svartsýnisraus sem veldur, heldur hafa foreldrar og aðrir sem vinna með börnum raunverulegar áhyggjur af því hvaða áhrif tölvuleikir og þá sérstaklega ofbeldisfullir leikir, hafa á óþroskaðan heila ungra einstaklinga. Tilgátum hefur t.d. verið haldið á lofti sem segja að ofbeldi í tölvuleikjum vekji upp n.k. ónæmi spilaranna fyrir því og leiði til aukinnar ofbeldishneigðar.

Þó fjölmargar rannsóknir hafa verið framkvæmdar í þessum efnum eru niðurstöðurnar ekki allar á sama máta. Nýleg rannsókn rannsóknarhóps við University of York bendir til þess að hér sé um óþarfa áhyggjur að ræða. Í rannsókninni sem náði til tæplega 3000 þátttakenda er horft til tvenns konar
þátta. Það er annars vegar almenna skilyrðingu spilara sem hafa leikið tölvuleiki og hins vegar skilyrðingu spilara þegar tölvuleikirnir eru ofbeldisfullir og raunverulegir.

Skemmst er frá því að segja að í hvorugu tilfellinu virtist mikil skilyrðing eiga sér stað meðal spilara. Skilyrðingin felst t.d. í því að þegar einstaklingur er búinn að spila tölvuleik með ofbeldisatvikum sem eru mjög raunveruleg þá ætti viðkomandi að vera sneggri að snúast í ofbeldisfullar hugsanir meðan spurningalista er svarað.

Slíkt var, eins og áður sagði, ekki raunin. Þetta eru óneitanlega góðar fréttir en fyrir foreldra sem hafa áhyggjur af börnunum sínum er rétt að setja þann fyrirvara á að hér voru einungis fullorðnir einstaklingar skoðaðir. Til að útiloka að áhrifin séu mikil á börnin okkar þarf auðvitað að skoða þann hóp sérstaklega.

Börn og unglingar eru nefnilega frábrugin fullorðnu fólki að því leiti að þeirra taugakerfi og félagshegðun hefur ekki náð þeim þroska sem fullorðin manneskja hefur. Það verður því áhugavert að sjá hver niðurstaðan úr frekari rannsóknum verður.