Mynd: Colleges world
Mynd: Colleges world

Í vísindaheiminum byggir fólk feril sinn að miklu leyti á því að birta vísindagreinar í góðum ritrýndum tímaritum. Tímaritin hafa misgott orðspor og það getur kostað blóð svita og tár að fá rannsóknina sína birta í þeim tímaritum sem hafa besta orðsporið. Slík tímarit rukka líka að öllu jöfnu fyrir aðgang að greinunum sem þau birta. Þetta býr til skrítna samkeppnisstöðu í vísindaheiminum, með þessu er hluta af rannsóknunum haldið frá þeim sem ekki geta eða vilja borga fyrir aðgang.

Rannsóknir er dýr iðnaður og til að greiða fyrir rannsóknirnar sækja vísindamenn um styrki í samkeppnissjóði sem í mörgum tilfellum eru fjármagnaðir af almannafé, má nefna Rannís sem nærtækt dæmi. Það kemur því kannski spánskt fyrir sjónir að meira að segja þeir sem greiða fyrir rannsóknina, skattgreiðendur, hafa ekki aðgang að upplýsingunum sem koma úr henni.

Margir vísindamenn hafa talað gegn þessu fyrirkomulagi og hafa sumir samkeppnissjóðir gengið svo langt að setja opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðunum sem skilyrði fyrir fjármögnun. Með því að opna aðgang allra rannsókna myndum við líka auka jöfnuð vísindamannanna en það getur að auki kostað fúlgur fjár fyrir rannsóknarhópinn sjálfan að fá grein birta í mjög virtum tímaritum. Slíkar fjárhæðir, hvort sem okkur líkar betur eða verr, standa ekki öllum rannsóknarstofnunum til boða þó að rannsóknin sé vel unnin, áreiðanleg og eigi fullt erindi í bestu tímaritin.

Í síðustu viku samþykkti Vísinda-, nýsköpunar-, viðskipta- og iðnaðarráðuneyti Evrópusambandsins markmið þess efnis að gera öll vísindarit innan Evrópu gjaldfrjáls árið 2020. Þetta þýðir að ekki bara vísindamenn heldur allur almenningur hafi nú ótakmarkaðan og frjálsan aðgang að birtum rannsóknargreinum.

Markmið sem þetta er mjög háleitt og mun það vafalaust kosta mikla orku, tíma og peninga að ná því. En viðleitni Evrópusambandsins til að jafna stöðu vísindamanna sem og almennings um alla Evrópu til aðgengis að þekkingu er þó stórt skref í rétta átt. Hvatinn vonar svo sannarlega að þetta markmið náist og að fleiri fylgi í kjölfarið.