arsen

Í gær fjallaði Fréttastofa RÚV um rannsókn sem gerð var á Karolinska Institute í Stokkhólmi í Svíþjóð. Rannsóknin var framkvæmd að beiðni SVT Nyheter, sænskrar fréttstofu í kjölfar frétta sem bárust í lok árs 2013 um að mikið magn arsens væri að finna í hrísgrjónum.

Hvatinn gerði stuttan athugun á því hvað er vitað um áhrif arsenik í fæðu á heilsu manna.

Arsen er frumefni númer 33 í lotukerfinu. Það telst til málmunga, sama flokks og kísill. Til eru tvær megingerðir af arsen í umhverfinu, lífrænt og ólífrænt arsen. Arsen sem telst lífrænt er í sambandi við kolefni og finnst víða í mat til dæmis sjávarfangi en telst ekki hættulegt heilsu manna. Ólífræn arsen sambönd teljast hins vegar hættuleg. Það eru fyrst og fremst slík efnasambönd sem ætti að forðast í matvælum. Enn sem komið er hafa ekki verið gefnar út neinar viðmiðunartölur um hversu mikið arsen matvæli mega innihalda án þess að það hafi teljandi áhrif. World Health Organization (WHO) hefur samt gefið út viðmið um arsen innihald í drykkjarvatni sem ætti ekki að fara yfir 10 μg/lítra.

Arsen finnst í grunnvatni víða þar sem hrísgrjón eru ræktuð og kenningin er sú að plantan dragi í sig efnið í gegnum jarðveginn. Þar sem mikil arsenmengun hefur komið upp hafa íbúar svæðisins fengið skrítin sár eða bletti á húð og dánartíðni af völdum krabbameina hefur aukist. Slíkt gerðist til dæmis í Bangladesh á 10 áratug síðustu aldar, þar sem arsenmengun í drykkjarvatni fór yfir 500 μg/lítra. Með mikilli fræðslu og hreinsun hefur tekist að draga úr mengun en íbúar á svæðinu eru enn að vinna úr afleiðingunum.

Vísbendingar eru einnig um að arsen geti haft áhrif á þroskun taugakerfisins í börnum, sem og þróun krabbameina og fjölmargra annarra sjúkdóma. Líffræðin á bak við áhrif arsens í sjúkdómum eru misvel skilgreind, en hefur helst verið skoðuð í krabbameinum.

Mikilvægt er að draga úr mengunarvöldum svo hægt sé að halda magni arsens í matvælum í lágmarki en einnig að skilgreina betur hversu mikið magn arsens, matvæli mega innihalda án þess að það hafi áhrif á neytandann. Í dag eru arsen mælingar yfirleitt framleiddar á heildarmagni arsens í matvælum en þar sem lífrænt arsen er ekki talið hafa áhrif á heilsu þá er mikilvægt að nota stöðluð próf sem mæla bæði lífrænt og ólífrænt arsen í matvælum.

Hvatinn vill einnig benda á svar vísindavefsins við spurningu tengdum þessum efnum, sem má lesa hér.