Mynd: Epicurious
Mynd: Epicurious

Fyrir nokkrum árum fjölluðu fjölmiðlar, þ.á.m. Hvatinn, um hátt hlutfall arsens í hrísgrjónum. Fyrir fullorðna einstaklinga sem borða hrísgrjón í hófi er ólíklegt að arsenið hafi áhrif. Hins vegar gegnir öðru máli um börn, sem þurfa að borða hlutfallslega meira en fullorðinn einstaklingur því þau eru að stækka og þroskast.

Hrísmjöl er mjög vinsælt og algengt innihaldsefni í barnamat. Það verður meira að segja gjarnan fyrir valinu sem fyrsta fasta fæða ungabarns, vegna heppilegs næringar innihalds og þeirrar staðreyndar að ofnæmi gegn hrísmjöli er mjög sjaldgæft.

Því miður sýna nýjar mælingar á þvagi ungbarna að arsen-innihald barnamats hefur ekki minnkað síðan umræður um þennan skaðvald stóðu sem hæst. Þrátt fyrir að reglugerðum um hámarks innihald efnissins hafi verið breytt, svo skilyrðin eru strangari, hefur magn arsens þvert á móti aukist.

Mælingar arsens í þvagi ungbarna sýndu að börn skiluðu frá sér meira arseni eftir neyslu á fastri fæðu, samanborið við brjóstamjólk. Að auki sýndu mælingarnar aukið arsen í þvagi barna sem drukku þurrmjólk, samanborið við brjóstamjólk og þá sérstaklega hjá börnum sem einhverra hluta vegna fengu mjólk þar sem uppistaðan var hrísmjólk.

Niðurstöður þessar voru birtar í PLOS ONE á dögunum. Greinahöfundar benda á að til eru áhrifagóðar leiðir til að þvo hrísgrjón í þeim tilgangi að losa arsenið úr þeim. Matvælaframleiðendur hafa því enga haldbæra afsökun fyrir þessum hörmulegu mælingum.

Enn sem komið er hefur einungis þessi rannsóknarhópur staðið fyrir mælingum sem þessum svo fleiri slíkar mælingar þurfa að koma til áður en hægt er að fullyrða um heiðarleika matvælaframleiðenda. En þangað til er þó líklega réttast fyrir foreldra ungra barna að halda hrísgrjónaafurðum í algjöru lágmarki í fæðu barna sinna.