washing-hands

Margar vörur sem við notum dags daglega innihalda efni sem hafa þá virkni að drepa bakteríur. Þetta á við um vörur eins og tannkrem, hreinsiefni eða jafnvel augndropa. Tilgangur efnanna í þessum vörum er augljós. Það sem er hins vegar því miður minna skilgreint er áhrif þessara efna á okkar eigin líkamsfrumur.

Stór hópur efna af þessu tagi sem er mikið notað í snyrtivörur og almennar hreinsivörur ganga undir nafninu quats (quaternary ammonium compounds). Þessi hópur inniheldur fjölmörg efni sem gegna mismunandi hlutverkum í þeim vörum sem þeim er komið í. Í rannsókn sem unnin var við University of California – Davis voru um 1600 efni, sem tilheyra undirhópi quats-efna, skoðuð m.t.t. hvaða áhrif þau hafa á mannafrumur í rækt.

Því miður voru niðurstöðurnar ekki sérlega jákvæðar gagnvart þessum útbreiddu efnum. Stór hluti efnanna virkuðu sem hindrar á hvatberana í frumunum. En hvatberarnir sjá um að umbreyta næringunni sem við borðum í orkueiningar sem hægt er að nota inní frumunni. Ef hvatberarnir virka ekki rétt getur fruman ekki búið til orku.

Að auki sýndu efnin áhrif á estrógen ferla frumunnar. En estrógen er hormón sem hefur t.a.m. áhrif á frjósemi. Þessi rannsókn er því í samhljómi með rannsóknum sem hafa sýnt fram á aukna ófrjósemi meðal músa og rotta sem komist hafa í snertingu við quats-efni.

Enn sem komið er, er lítið hægt að segja um hvernig áhrif þessi efni hafa á frumurnar okkar þegar við notum þau, t.d. við þvott eða þegar við burstum tennurnar. Það má leiða að því líkur að langvarandi notkun á efnunum geti leitt til einhverra heilsufarstengdra vandamála. Að auki er óhugnarlegt að hugsa til þess hversu mikið magn af þessum efnum er a.ö.l. að finna í nærumhverfi okkar. Við erum því ekki aðeins að eitra fyrir sjálfum okkur og nágrönnum okkar með notkun þeirra heldur eitrum við náttúruna auðvitað líka.

Rétt er að taka fram að mörg efnanna sem falla undir þennan stóra flokk eru til skoðunar hjá FDA (Food and Drug administration) í Bandaríkjunum. En eins og kemur fram hér að ofan eru uppi miklar efasemdir um öryggi þessara efna.