Mynd: Jeff Leach
Mynd: Jeff Leach

Fleiri og fleiri rannsóknir sýna hversu ótrúlega víðtæk áhrif bakteríuflóran hefur á líf okkar. Ekki ber að undra, enda eru fleiri bakteríur í og á líkama okkar en mannafrumur. Þetta samlífi hefur þróast með okkur frá upphafi mannsins og njóta að því er virðist allir góðs af.

Hvernig bakteríurflóran er samansett er mikilvægt fyrir heilbrigði okkar og telja margir að þá skipti höfuðmáli hvað við borðum, í hvaða magni og kannski líka hvað við borðum ekki. Nýleg rannsókn unnin við Stanford gefur mjög góða mynd af því hvernig það sem við borðum hefur áhrif á bakteríusamfélagið í líkama okkar.

Í rannsókninni voru saursýni 188 einstaklinga yfir allt árið skoðuð m.t.t. samsetningu bakteríuflórunnar. Það sem gerir sýnagjafana sérstaka er að allir sjálfboðaliðarnir eru meðlimir samfélags veiðimanna og safnara, þ.e. hópurinn borðar fæðu sem er árstíðabundin. Þannig er kjöt á boðstólnum meðan tíðin er þurr en hunang og ber uppistaðan í fæðunni meðan rigningatíð stendur yfir. Samfellt yfir árið neytir hópurinn þó einnig ávexta og róta.

Bakteríuflóra hópsins sýndi ekki bara meiri fjölbreytileika þegar hún var borin saman við það sem áður hefur fundist í meðaltals manneskju nútímans. Bakteríuflóran sýndi líka meiri sveiflur milli árstíða. Sveiflurnar endurspegluðu mjög greinilega breytingarnar í matarræði hópsins, en það er líka rökrétt að mismunandi fæðutegundir kalla á mismunandi niðurbrot, sem er einmitt hlutverk bakteríanna í þörmunum.

Það bendir því margt til þess að þær breytingar sem hafa orðið í samfélagi okkar hafi mun víðtækari áhrif á okkur en við höfðum gert okkur grein fyrir. Ef við viljum t.d. viðhalda bakteríuflóru sem líkist þeirri sem forfeður okkar höfðu gæti verið nauðsynlegt að fylgja meira árstíðabundnum sveiflum í náttúrunni. Það verður þó að viðurkennast að slíkt matarræði getur stangast á við ráðleggingar sem við reynum að lifa eftir um fjölbreytta næringu.