screen-shot-2017-09-21-at-20-39-28

Samkvæmt niðurstöðum bandarískrar rannsóknar eru unglingar í dag ekki að flýta sér að fullorðnast jafn hratt og unglingar fyrri kynslóða. Þeir drekka minna, byrja að stunda kynlíf seinna og hafa minni áhuga á að taka bílprófið en áður.

Rannsóknin náði til 8,3 milljón unglinga á árunum 1976 til 2016 og voru niðurstöður hennar birtar í tímaritinu Child Development. Í rannsókninni svöruðu unglingar spurningalista og kom meðal annars í ljós að þeir voru ólíklegri en fyrri kynslóðir til að keyra, vinna, fara á stefnumót, stunda kynlíf auk þess sem þeir eyddu meiri tíma með foreldrum sínum.

Höfundar greinarinnar telja ekki að hér sé aðeins um að ræða breyttar áherslur í uppeldi heldur stafi breytingin að miklu leyti að breyttu umhverfi. Meðal annars lifi fólk í dag lengur en áður og eignast börn seinna á lífsleiðinni. Þörfin til að fullorðnast hefur því að því er virðist færst aftar og gefa niðurstöður rannsóknarinnar til kynna að 18 ára unglingar í dag séu líkar 15 ára unglingum áttunda og níunda áratugarins.

Annar höfundur greinarinnar og rithöfundur bókar um sama efni, Jean Twenge, hefur þó áhyggjur af því að tíðni sjálfsvíga unglinga sé hærri en áður hefur verið. Hún telur að tilkoma snjallsíma gæti spilað þar inn í og að unglingar séu líklegri til að upplifa sig einangraða frá jafnöldrum sínum en áður.

Þó unglingarnir eyði minni tíma saman í eigin persónu en fyrri kynslóðir eru samkomur þeirra áberandi á samfélagsmiðlum sem getur haft neikvæð áhrif á líðan þeirra sem ekki var boðið með.

Mikilvægt er að hafa í huga hér er um að ræða svör við spurningalista og ekki er hægt að alhæfa nokkuð um heila kynslóð út frá niðurstöðum rannsóknarinna. Þó telja höfundarnir að niðurstöðurnar gefi til kynna ákveðna breytingu á samfélaginu og hvernig ungt fólk mótast af henni.