Mynd: SciDevNet
Mynd: SciDevNet

Vísindaheimurinn gengur að miklu leiti útá að birta rannsóknir sínar í virtu ritrýndu vísindariti. Til að fá rannsóknir sínar birtar í virtum tímaritum þarf að vanda mjög til verka og hver einasta rannsókn sem er birt er lesin af öðru vísindafólki sem hefur víðtæka þekkingu í sambærilegu fagi sem meta hversu áreiðanleg rannsóknin er.

Þrátt fyrir þetta ber okkur alltaf að lesa rannsóknir með gagnrýnni hugsun og rannsóknir sem sýna fram á áður óþekkta vitneskju þarf að endurtaka oft áður en við förum að líta á þessar nýjungar sem staðreyndir.

Að þessu leyti er kerfið sem vísindaheimurinn hefur komið sér upp til að birta vísindi að mörgu leiti gallaður, til dæmis eru tímarit treg til að birta neikvæðar niðurstöður, ómarktækar niðurstöður og endurteknar rannsóknir. Það er einu sinni þannig að í tímaritaheiminum er samkeppni um lesendur eins og annars staðar og því þurfa ritstjórar líka að velja úr rannsóknir sem eru líklegar til að vekja athygli.

Þar að auki hefur rannsóknarhópurinn sjálfur alltaf áhrif á það hvers konar niðurstaða fæst úr tilrauninni. Það er yfirleitt ekki með ráðum gert, en það er rannsóknarhópurinn sem hannar tilraunina, þ.e. velur rannsóknarspurninguna og á hvaða hátt henni sé svarað. Þar að auki er það rannsóknarhópurinn sem túlkar gögnin, þó rannsóknargögn séu alltaf bara tölur á blaði þá getur það skipt sköpum frá hvaða sjónarhorni þú horfir á tölurnar, hvort þú færð marktækar niðurstöður eða ekki.

Það eru ótal gildrur sem vísindafólk getur fallið í við rannsóknir sínar, eins og farið er í gegnum í Vertasium myndbandinu hér að neðan. Þess vegna er mikilvægt fyrir alla að lesa ALLT með gagnrýnum huga, hvort sem um er að ræða nýjar niðurstöður eða umræður um gamlar. En það er ekki síður mikilvægt að vísindafólk sé meðvitað um þá annmarka sem eru á birtingum rannsókna og reyni að finna fleiri og betri leiðir til að koma rannsóknum sínum á framfæri.