Líkt og leðurblökur og höfrungar geta blindir einstaklingar lært að nýta bergmálsmiðun (e. echolocation) til að skynja umhverfi sitt. Rannsóknarhópur við Durham háskóla í Bretlandi varpar ljósi á þetta merkilega fyrirbæri í nýrri grein.

Bergmálsmiðun byggir á því að nota röð hljóða eða smella til að endurkasta hljóðbylgjum af nærliggjandi hlutum. Út frá bergmálinu geta þeir sem nýta bergmálsmiðun skapað mynd í huganum af umhverfinu.

Í ljós hefur komið að mannfólk er í raun nokkuð lunkið við að nýta sér bergmálsmiðun og er Daniel Kish, einn höfundur greinarinnar, einn þeirra. Kish fæddist blindur og hefur tekist að læra bergmálsmiðun með ótrúlegum árangri, hefur hann fyrir vikið hlotið viðurnefnið “ótrúlegi leðurblökumaðurinn”.

Átta blindir einstaklingar sem allir eiga það sameiginlegt að nýta sér bergmálsmiðun í sínu daglega lífi tóku þátt í rannsókninni. Til að komast að því hversu vel þátttakendur gátu skynjað umhverfi sitt var þeim komið fyrir í hljóðdauðu, bergmálslausu herbergi og athugað hversu vel þær gætu skynjað disk sem var í eins meters fjarlægð frá þeim.

Í ljós kom að þátttakendurnir gátur skynjað diskinn í 100% tilfella ef hann var staðsettur beint fyrir framan þá í munnhæð. Að auki kom í ljós að ef diskurinn var ekki beint á móti þeim urðu smellirnir sem þeir nýttu til að reyna að skynja hann fleiri og örari.

Þátttakendur áttu erfiðara með að skynja diskinn ef hann var ekki beint fyrir framan þá og minnkaði nákvæmni þeirra niður í um 80% nákvæmni þegar diskurinn var í 135 gráður við þá en í um 50% nákvæmni ef diskurinn var beint fyrir aftan þá.

Greinin var birt í tímaritinu The Proceedings of the Royal Society sem nálgast má hér. Að auki má sjá Ted fyrirlestur Kish um hæfileika sína hér fyrir neðan.