Festir kannast við hinn umdeilda BMI stuðul og bera jafnvel blendnar tilfinningar til hans. Hlutverk BMI stuðulsins er að gefa okkur tölu sem getur sagt okkur til um hvar við stöndum á þyngdarskalanum, þ.e. hvort við erum að nálgast offitu eða hvort við erum mögulega of létt.

BMI stuðullinn hefur lengi verið umdeildur þar sem inní hann eru einungis settar tölur sem tákna hæð og þyngd, en hann tekur lítið tillit til hvernig sú þyngd er samansett og af hvaða aldri eða kyni viðkomandi er.

Þar sem BMI er ekki gallalaus hefur hann ekki getað þjónað miklu læknisfræðilegu hlutverki, þó hann sé að einhverju leiti hægt að nota við lýðheilsurannsóknir, til að skoða til dæmis hvort ákveðnir hópar eru í meiri hættu að þróa með sér offitu og tengda kvilla.

Nú virðist loksins vera kominn til sögunnar stuðull sem raunverulega verður hægt að nota í læknisfræðilegum tilgangi, þ.e. fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að meta hvort einstaklingur sé í áhættuhóp til að þróa með sér offitutengda heilsufarslega kvilla. Þessi stuðull gengur undir skammstöfuninni RFM, sem stendur fyrir relative fat mass (eða: hlutfall fitu af þyngd).

RFM stuðullinn er reiknaður útfrá ummáli mittis og hæð. Hann er sértækur fyrir kynin og hefur nú verið prófaður á 12000 manna úrtaki í rannsókn sem var birt í Scientific reports. Í rannsókninni var stuðullin reiknaður út fyrir áðurnefnda 12000 einstaklinga. Síðan var stuðullinn notaður til að spá fyrir um þyngdarástand 3500 einstaklinga úr hópnum og reyndist hann þá sannspár um ástandið.

Til að reikna út RFM stuðul þarf eingöngu hæðarmælingu og ummál mittis. Hér reiðir á að mæla á réttum stað, rétt fyri ofan mjaðmabeinin, en þessi mæling gæti því miður orðið erfið ef hún er háð mælandanum.

Ætla má að innleiðing RFM stuðulsins muni taka nokkra stund, enda fjölmargar rannsóknir nú þegar birtar þar sem BMI stuðullinn er notaður. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort RFM muni raunverulega leysa BMI af hólmi.