women-dress-reading-books-turkish-nail-polish

Niðurstöður nýrrar rannsóknar færa lestrarhestum góðar fréttir. Samkvæmt þeim eru þeir sem lesa í í það minnsta 30 mínútur á dag líklegri til að lifa lengur en þeir sem ekki gera það, nánar tiltlekið 23 mánuðum lengur. Niðurstöðurnar voru birtar í Social Science & Medicine.

Rannsóknin var gerð af rannsóknarteymi við Yale háskóla, náði til 3.635 einstaklinga sem voru 50 ára og eldri og stóð yfir í 12 ár. Þátttakendum var skipt í þrjá hópa: þá sem lásu ekkert, þá sem lásu allt upp í 3,5 klukkustundir á viku og þá sem lásu meira en 3,5 klukkustundir á viku.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að því lengur sem þátttakendur lásu því líklegri voru þeir til að vera á lífi við lok tímabilsins. Eftir að stjórnað hafði verið fyrir þáttum á borð við kyn og menntunarstig voru þeir sem lásu meira en 3,5 klukkustundir á viku 23% ólíklegri til að hafa látið lífið á tímabilinu á meðan þeir sem lásu minna en 3,5 klukkustundir á viku voru 17% ólíklegri til að deyja en þeir sem ekkert lásu.

Til að áhrifin kæmu fram var því nóg að lesa 3,5 klst á viku eða í um 30 mínútur á dag. Það skipti þó máli hvað var lesið og hafði lestur bóka meiri jákvæð áhrif en lestur tímarita og dagblaða. Þetta telur rannsóknarhópurinn að gæti stafað af því að bækur krefjist meiri hugrænnar skuldbindingar og hafi lestur þeirra þannig meiri áhrif.

Mikilvægt er að athuga að þó að niðurstöðurnar séu vissulega áhugaverðar er aðeins um að ræða fylgni en ekki hefur verið sýnt fram á að það sé lesturinn sem er orsök þess að lestrarhestarnir lifðu lengur. Niðurstöðurnar styðja þó við niðurstöður fyrri rannsókna sem hafa gefið til kynna að lestur sé góð hugarleikfimi.

Næstu skref rannsóknarhópsins eru að kanna hvort mun sé að finna á lestri skáldsagna eða bóka sem byggja á raunverulegum atburðum.