Mynd: WillisWire
Mynd: WillisWire

BRCA1 er gen sem skráir fyrir prótíni sem tekur þátt í viðgerðarferlum á erfðaefninu. Ákveðinn hluti mannkyns hefur arfgenga stökkbreytingu í þessu geni sem eykur líkur á brjósta og eggjastokkakrabbameinum. Fyrirtækið Myriad Genetics er bandarískt líftækni fyrirtæki sem árið 1994 einangraði og skilgreindi BRCA1 genið. Í kjölfarið sótti fyrirtækið um einkaleyfi á geninu og fékk frá Einkaleyfastofu Bandaríkjanna. Síðan þá hefur staðið nokkur styr um rannsóknir á geninu, í Bandaríkjunum og víðar. Með einkaleyfinu leggur Myriad Genetics stein í götu þeirra sem annað hvort vilja rannsaka genið og áhrif þess eða þeirra einstaklinga sem hafa ástæðu til að halda að þeir hafi stökkbreytinguna.

Árið 2010 féll dómur í Hæstarétti Bandaríkjanna sem úrskurðaði sem svo að einkaleyfin væru ógild í Bandaríkjunum. Ógildingin var gerð á þeim grundvelli að genin fyrirfinnast í náttúrunni og með því að einangra þau eða skilgreina var ekki verið að búa til neitt nýtt heldur einungis finna eitthvað sem hefur alltaf verið til.

Þessi dómur hefur án efa verið hafður til hliðsjónar þegar Hæstiréttur Ástralíu dæmdi á sama hátt í gær. Í dómnum kemur fram að Myriad Genetics gæti ekki haft einkaleyfi á BRCA1 geninu þar í landi heldur. Þessir dómar eru mjög mikilvæg skref sem tekin hafa verið í átt að frelsi einstaklinga til að fá upplýsingar um áhættuþætti sína. Að auki hefur þetta áhrif á frelsi vísindamanna til rannsókna og mun því líklega leiða til frekari framfara í meðhöndlun einstaklinga með stökkbreytingu í BRCA1 geninu. Dómar sem þessi munu að öllum líkindum einnig hafa áhrif á fleiri uppgötvanir í líftækninni en einkaleyfi fleiri gen hafa verið gefin. Segja má að dómarnir marki ákveðið upphaf í nýrri skilgreiningu á einkaleyfum innan líftækninnar.

Samkvæmt upplýsingum Hvatans hefur ekkert fyrirtækið eða aðili einkaleyfi á geninu á Íslandi.