ManSleeping1

Flest höfum við fordóma, jafnvel þó þeir séu ómeðvitaðir. Samfélagið gefur okkur hugmyndir um hvernig heimurinn eigi að vera sem við meðtökum og skilgreinum svo samfélagið ósjálfrátt útfrá því. Dæmi um þetta eru fjölmargar rannsóknir þar sem fólk er látið lesa yfir ferilskrár karla og kvenna. Séu tvær ferilskrárnar nákvæmlega eins að öðru leiti en því að kvenkyns nafn stendur á annarri og karlkyns nafn á hinni bera lesendur ferilskránna oftast meira traust til karlkyns umsækjanda og telja hann eiga rétt á hærri launum. Þessar forhugmyndir finnast óvíða í samfélaginu og getur verið mjög erfitt að fría sig frá þeim þar sem þær eru algjörlega ómeðvitaðar. En nú gefur ný rannsókn til kynna að hægt sé að breyta slíkri hugsun fólks, í svefni.

Þegar við sofum vinnum við úr minningum sem mynduðust í vökutíma. Vísindahópur við Northwestern University nýtti sér þessa vitneskju til að efla valdar minningar. Fyrst voru þátttakendur sendir í próf sem gefur til kynna hvaða hug þeir báru til þekktra staðalímynda á borð við hlutverk kynjanna eða stöðu litaðra.

Næst voru þátttakendur látnir skapa nýja minninguna, til dæmis með því að tengja konur við vísindi og stærðfræði. Samtímis sköpun minningarinnar var spilað hljóð sem þátttakendur tengdu þá við hana. Meðan þátttakendur sváfu var hljóðið svo spilað og þannig var sú tiltekna minning sem þátttakendur tengdu við hljóðið efld.

Þegar þátttakendur voru svo prófaðir með tilliti til hvernig þeir sáu konur fyrir sér sem vísindamenn á framabraut, kom í ljós að efling tenginganna í svefni hafði áhrif á hugmyndir þátttakendanna í vöku. Þeir þátttakendur sem ekki voru látnir hlusta á hljóðin í svefni sýndu ekki sömu eflingu. Niðurstöður úr þeirra prófum voru sambærilegar þeim niðurstöðum sem fengust fyrir meðhöndlun.

Áhrifin voru einnig mæld viku eftir meðhöndlun og þá gætti áhrifanna ennþá. Forhugmyndir á borð við þær sem nefndar eru hér eru einstaklega djúpstæðar, eitthvað sem flestir hafa þroskað með sér, ómeðvitað, frá barnæsku. Það væri því barnalegt að halda að ofangreind meðhöndlun gæti breytt því á einni nóttu. En það er samt sem áður merkilegt að geta haft svona djúpstæð áhrif á ómeðvitaða fordóma fólks og vonandi getum við nýtt þessa þekkingu til að gera samfélagið að betri stað, þar sem allir geta lifað í sátt og samlyndi.