sleeping-in-class

Svefn er mikið rannsakað fyrirbæri, enda er það alveg stórkostlegt. Það er svo skrítið að öll missum við meðvitund u.þ.b. þriðjung úr sólarhring. Hvenær sólarhringsins meðvitundarleysið fer fram gengur þokkalega jafnt yfir alla flestir sofa nefnilega á nóttunni meðan dimmt er úti. Að sjálfsögðu eru þar einhver vikmörk á eins og hinar margumræddu A og B týpur gefa til kynna. Unglingar eru alveg sérstök gerð af B týpum, en þegar kynþroskinn fer að gera vart við sig verða oft miklar breytingar á svefnmynstri og svefnhrynjandinn hliðrast til um allt að þrjá klukkutíma.

Margir foreldrar kannast við að unglingurinn virðist geta sofið nánast endalaust þó löngu sé kominn miður dagur. Þar að auki upplifa margir unglingar erfiðleika við að sofna á kvöldin. En lífið er ekki hannað í kringum þarfir unglinga og þess vegna neyðum við allar týpur samfélagsins til að fylgja hegðunarmynstri A týpunnar, vakna snemma, fara í vinnu snemma og svo framvegis. Ný rannsókn sem framkvæmd var við háskólana í Oxford, Nevada og Harvard bendir til að þetta sé mögulega ekki rétta leiðin.

Rannsóknin leiddi í ljós að fyrir 10 ára börn ætti skólinn ekki að byrja fyrr en 8:30, þegar þau ná svo 16 ára aldri hentar þeim mun betur að byrja í skólanum eftir klukkan 10:00 og 18 ára gætu best hugsað sér að skólinn byrji ekki fyrr en í fyrsta lagi klukkan 11:00. Þessar breytingar eru ekki einungis nauðsynlegar svo að unga fólkið eigi auðveldara með að mæta í skólann, heldur hafa margar rannsóknir ítrekað sýnt að of lítill svefn hefur neikvæð áhrif á heilsu. Það sem meira er þá hefur of lítill svefn neikvæð áhrif á getu okkar til að læra, en það er einmitt til þess sem krakkarnir mæta í skólann.

Það verður þó að segjast að það er ekki alveg raunhæft að seinka skólanum nánast fram að hádegi. Það vill nefnilega þannig til að hluti þeirra sem þarf að taka tillit til eru kennarar og annað fullorðið fólk sem á bágt með að byrja daginn svona seint. Það má þó fara milliveg svo vel fari, sem dæmi mætti seinka skólanum til 9:30 en þá gætu árrisulir kennarar haft undirbúningstíma fyrir kennsluna áður en kennsla hefst. Hlutverk menntakerfisins er jú að koma ungu fólki útí heiminn með einhverja vitneskju í kollinum en ekki bara slæmar minningar af langvarandi svefnskorti.