Mynd: Phineas and Ferb
Mynd: Phineas and Ferb

Dæs eru skemmtileg fyrirbæri, þau tákna yfirleitt yfirdrifna bugun eða leiðindi og geta verið allt að dónaleg sé þeim sleppt út í röngum aðstæðum. Nú gefa nýjar rannsóknir til kynna að hvort sem dæsin sleppa út á viðeigandi augnarblikum eða ekki þá eru þau mikilvægur partur af lífeðlisfræði okkar.

Það vill þannig til að andadrættinum og takti hans er stjórnað mjög nákvæmlega á ákveðnum stað í heilanum. Andadrátturinn sem endar í dæsi felur í sér innt0ku á aukalofti sem leiðir til þess að lungnablöðrurnar, sem sjá um hin eiginlegu efnaskipti lungna og æða, þenjast betur út. Þetta ferli gerist í raun á fimm mínútna fresti, þó hið eiginlega dæs sé ekki alltaf jafnáberandi.

Rannsóknarhópur við University of California birti nýlega grein í Nature þar sem þau lýsa því hvernig þessum öndunartakti er stjórnað. Með því að skoða tjáningu gena í heila músa komst hópurinn að því að dæsinu er stýrt af einungis tveimur litlum sameindum.

Þessar niðurstöður gætu, ef þær reyndast sambærilega í mönnum, aukið þekkingu og meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem glíma við öndunarfæra sjúkdóma. Jafnvel þó slíkur árangur næðist ekki þá eru niðurstöðurnar að minnsta kosti huggun fyrir okkur sem finnst dæsið minnka bugunina, um allavega örfá bugunarstig.