screen-shot-2017-10-24-at-20-41-31

Dagana 23.-29. október stendur yfir viðburður sem ber heitið Open Access Week sem ætlað er að hvetja vísindasamfélagið til að opna á aðgang að vísindagreinum. Viðburðurinn er ekki haldinn að ástæðulausu því stór hluti rannsókna vísindamanna er ekki opinn öllum heldur þarf gjarnan að greiða fyrir hann með áskrift að því tímariti sem rannsóknin birtist í. Einnig er aðgangur að lokaritgerðum í mörgum tilfellum lokaður í þeim háskóla sem verkefnið var unnið við

Skiptar skoðanir eru á því hvort að opna eigi aðgang að greinum vísindamanna en umræða um það er sífellt að aukast og fjölgar þeim sem eru sammála um það að opinn aðgangur að vísindagreinum sé af hinum góða.

Meðal þeirra vísindamanna sem nú deilir vinnu sinni með almenningi er hinn virti Stephen Hawking. Hawking varði doktorsverkefni sitt við Cambridge háskóla árið 1966, þá 24 ára gamall. Viðfangsefni verkefnisins voru áhrif þess að alheimurinn þenjist sífellt út. Hawking sem nú er 75 ára, vonar að með því að gera verk sín aðgengileg muni hann vekja áhuga fólks á því að horfa til himins og velta fyrir sér tilvist okkar í alheiminum.

Áhugasamir geta gluggað í þessi fyrstu skref Hawking í vísindaheiminum sér að kostnaðaralausu hér. Slóðin að ritgerðinni lá að vísu niðri um tíma í gær vegna álags en er komin í loftið á ný.