Kaffi er sennilega einn vinsælasti drykkur veraldar, enda ekki að furða þar sem þessi dásamlegi drykkur er mjög svo ávanabindandi.

Myndbandið hér að neðan útskýrir hvað koffín gerir í líkamanum. Í heilanum eru viðtakar fyrir efni sem heitir adenósín. Adenósín safnast upp í líkamanum og heilanum yfir daginn og gerir okkur þreytt, það þýðir að þegar við höfum vakað heilan dag er magn adenósín bundið á viðtaka í heilanum í hámarki og við förum að sofa. Meðan við sofum losnar adenosine frá viðtökunum og magn þess í líkamanum minnkar, þess vegna vöknum við eftir nokkurra tíma svefn.

Þegar við drekkum kaffi fer koffín inní blóðrásina og alla leið til heilans. Bygging koffíns er mjög svipuð byggingu adenósíns svo það binst á sömu viðtaka í heilanum. En koffín hefur þveröfug áhrif, við verðum ekki þreytt heldur vakandi. Með tímanum venst líkaminn þessu nýja efni og fer að framleiða fleiri adenósín viðtaka, svo við þurfum meira kaffi til að upplifa sömu áhrif.

En hvenær er eiginlega best að drekka kaffi? Fyrsta hugsun dagsins er oftar en ekki um indælan kaffibolla, eða hvaða koffíngjafa sem hver kýs sér. Samkvæmt eftirfarandi myndbandi er þó ekki endilega best að láta eftir þessari koffín löngun strax í upphafi dags.

Hormónið sem kemur okkur á fætur og heldur okkur vakandi yfir daginn heitir kortisól. Það er framleitt í nýrnahettunum og er framleitt í mismiklu magni yfir daginn. Ef kaffi er drukkið á sama tíma og kortisól framleiðslan er í hámarki minnka áhrifin af kaffinu. Þess vegna mæla vísindamenn með því að kaffið sé drukkið þegar kortisól framleiðsla nær lágmarki eða um það bil klukkustund eftir að við vöknum.

Myndbandið hér að neðan lýsir þessu vel, en það gæti reynst þrautin þyngri að breyta útaf þeim vana að byrja daginn á ilmandi kaffibolla.