Mynd: Popular Science

Kólesteról í fæðu hefur lengi verið tengt við aukið kólesteról í blóði. Þetta hefur fólk með hjarta og æðasjúkdóma fengið að upplifa á eigin skinni þegar því er ráðlagt að halda sig frá fæðu á borð við egg. Egg eða réttara sagt eggjarauða er rík af kólesteróli og fjölmörgum öðrum næringarefnum enda er hún ætluð sem forðabú fyrir vaxandi fuglafóstur.

Á síðastliðnum árum hafa vísindin hægt og bítandi fært sig fjær því að setja samasemmerki á milli kólesterólríkra fæðu og aukins kólesteróls í blóði. Þó mögulega geti ákveðnar fæðutegundir haft áhrif á kólesteról í blóði, þá er því að öllum líkindum miðlað á annan hátt.

En vísindin eru, eðli málsins samkvæmt hægfara og treg að stökkva á nýjungar nema að búið sé að rannsaka tilgáturnar í þaula. Því hefur rannsóknarhópur við University of Sydney birt rannsókn sem sýnir að eggjaneysla hefur ekki áhrif á hjarta og æðatengda áhættuþætti hjá fólki sem er áhættuhóp fyrir t.d. hátt kólesteról.

Í rannsókninni sem birt var í American Journal of Clinical Nutrition er fylgst með 128 manns á annars vegar eggjasnauðu fæði (minna en tvö egg á viku) og hins vegar eggjaríku fæði (meira en 12 egg á viku) í heilt ár. Á þriggja mánaða fresti voru þættir tengdir hjarta og æðakerfinu, svo sem kólesteról, blóðsykur og blóðþrýstingur, metnir.

Sjálboðaliðarnir sem tóku þátt í rannsókninni voru í áhættuhópi fyrir hjarta og æðasjúkdóma vegna sykursýki týpu tvö á fyrstu stigum. Í ljós kom að hvorki eggjasnautt né eggjaríkt fæði hafði áhrif á ofantalda þætti meðal sjálfboðaliðana. Þessar niðurstöður sýna að kólesterólrík fæða, eins og egg, hafa ekki áhrif á kólesteról í blóði, þrátt fyrir undirliggjandi áhættuþætti eins og um var að ræða hér.

Fleiri fæðuflokkar hafa verið settir á bannlista vilji maður halda kólesterólinu í lagi. Sú rannsókn sem hér hefur verið tíunduð tekur ekki sértækt á öðrum fæðuflokkum en höfundar greinarinnar leggja þó áherslu á að báðir hóparnir voru beðnir um að velja ómettaða fitu í stað mettaðrar fitu. Næstu skref verða kannski að skoða hvort mettuð fita, eins og smjör, sé hin eiginlega bannfæða.