Mynd: Berkley's On Ann
Mynd: Berkley’s On Ann

Lengi vel hefur því verið haldið að fólki að neysla kólesterólrikra afurða hafi bein áhrif á kólesteról í blóði og auki þannig líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum. Eftir því sem rannsóknum á sviðinu fjölgar virðast þessi tengsl veikjast. Nú bætist í hópinn finnsk rannsókn sem unnin var við University of Eastern Finland, en hún sýnir að meira að segja einstaklingar í áhættuhóp fyrir hjarta- og æðasjúkdóma þurfa ekki að hafa áhyggjur af eggjaneyslu.

Kólesteról er fituefni sem líkaminn notar meðal annars sem byggingarefni fyrir hormón. Kólesteról er því ekki einungis neikvæður áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma heldur líka lífsnauðsynlegt byggingarefni. Þeim sem glíma við hátt gildi kólesteróls hefur oft verið ráðlagt að halda sig frá fituríkum og kólesterólríkum matvælum og þá er kannski sérstaklega horft til þeirra sem eiga nána ættingja sem glímt hafa við hjarta- og æðasjúkdóma.

Eitt af mörgum genum sem tengt hefur verið við aukna áhættu á hjarta og æðasjúkdómum er APOE4, en breyting í því sem tengd er við hátt kólesteról, er tiltölulega algeng í Finnlandi. Rannsóknin sem unnin var við University of Eastern Finland skoðaði matarræði 1032 karlkyns einstaklinga á 21 árs tímabili. Á meðan á rannsóknartímabilinu stóð fengu 230 þeirra einhvers konar hjarta- og æðatengda sjúkdóma. Að auki taldi sá hlut þýðisins sem bar breytingu í APOE4 geninu 32,5%.

Þegar næringarinntaka hópsins var skoðuð fundust engin tengsl milli þess að neyta eggja á hverjum degi og að fá hjarta- og æðasjúkdóma. Þegar einungis þau 32,5% hópsins sem báru breytingu í APOE4 voru skoðuð fannst að sama skapi engin fylgni milli eggjaneyslu og aukinnar áhættu á hjartatengdum kvillum.

Þessi rannsókn gefur sterklega til kynna það sem fleiri rannsóknir hafa nú þegar sýnt að neysla á kólesterólríkri fæðu hefur lítil sem engin áhrif á áhættu hjarta- og æðasjúkdóma. Líklegt er þó að neysla á harðri fitu eða sykri í óhóflegu magni hafi áhrif þar á.