Mynd: Tranquil Waters
Mynd: Tranquil Waters

Við höfum flest lesið um einhyrninga í ævintýrum, stórkostlega fallegar verur sem skarta einu horni á enninu. Þessi dásamlega fallega vera er þó aðeins til í ævintýrum… eða hvað?

Raunar er þekkt staðreynd að einhyrningar hafa á einhverjum tímapunkti ráfað um jörðina okkar. Þeir einhyrningar sem voru raunverulega til eru kannski ekki hinar stórglæsilegu verur sem ævintýrin hafa skapað heldur líkjast þessir einhyrningar miklu frekar nashyrningum en hestum, enda sennilega náskyldir nashyrningum.

Ný rannsókn sem birtist í American Journal of Applied Sciences sýnir að einhyrningurinn eða Elasmotherium sibiricum dó ekki út fyrir 350 þúsund árum eins og talið var. Nýlega fundust nefnilega steingervingar í Síberíu sem sýna að dýrið hefur verið til fyrir ekki nema 29 þúsund árum. Þarna munar umtalsverðum tíma en vísindahópar vonast til að frekari rannsóknir geti varpað ljósi á þróunarfræði tegunda sem voru uppi á sama tíma.

Það gætu verið vonbrigði fyrir einhverja að vita að raunverulegir einhyrningar standast ekki alveg lýsingar á verunum í ævintýrabókum en þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem útlit ævintýrapersóna er afbakað. Það er víst þetta sem gerist þegar Walt Disney sveipar raunveruleikann töfrum sínum.

Mynd: Huffington Post
Mynd: Huffington Post

Fyrir þá sem vilja vita meira um einhyrninga, sem ekki koma fyrir í ævintýrum, er bent á PhysOrg, þar sem fjallað er um steingervingafundinn.