©Kristinn Ingvarsson
©Kristinn Ingvarsson
(fengin af www.landspitali.is)

Rannsóknarhópur Sigurðar Yngva Kristinssonar hlaut á dögunum rannsóknarstyrk uppá 2,4 milljónir bandaríkjadala. Þessi upphæð samsvarar 300 milljónum íslenskra króna, en styrkinn hlaut hópurinn frá alþjóðlegum samskeppnissjóð sem staðsettur er í Kaliforníu og heitir International Myeloma Foundation.

Verkefnið sem styrknum er ætlað að fjármagna snýst um að skilgreina svokallaða einstofna góðkynja mótefnahækkun (MGUS) en það er forstig krabbameins sem kallast mergæxli. MGUS getur verið meinlaust og jafnvel varað lengi hjá einstaklingum áður en úr verður mergæxli en hluti af verkefninu er einmitt að skilgreina hvað hægt sé að gera fyrir einstaklinga sem greinast með MGUS til að koma í veg fyrir krabbameinsmyndun.

Rannsóknin fer þannig fram að 140.000 einstaklingum á Íslandi er boðið uppá skimun á MGUS. Samkvæmt útbreiðslu mergæxla ættu um 4% þessara einstkalinga að greinast með MGUS við þessa skimun. Þeim verður þá boðið að koma til klínískrar meðferðar til að greina hvaða meðferð hentar best við meðhöndlun á forstigi mergæxlisins.

Með þessu móti ætlar rannsóknarhópurinn að svara mikilvægum spurningum eins og hvort skimun fyrir MGUS sé hagkvæm og æskileg, hvaða áhrif það hefur á lífsgæði einstaklinga að greinast með MGUS og hvort hægt sé að meðhöndla mergæxlin á forstigi, en slík meðferð tíðkast ekki eins og staðan er í dag.

Verkefnið er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala háskólasjúkrahúss, Memorial Sloan Kettering sjúkrahússins í New York og Binding Site sem er fyrirtæki staðsett í Bretlandi.