Mynd: Medical News Today
Mynd: Medical News Today

Kúamjólk hefur lengi verið nýtt af mannskepnunni í hin ýmsu matvæli og segja má að þessi prótínríki drykkur hafi haldið lífi í Íslendingum á sínum tíma þegar lítið úrval var á fæðu. Í nútímanum er mjólk enn mikið notuð, þó margir setji nú spurningamerki við nýtingu dýra á þennan hátt og sem dæmi er mjólk á bannlista hjá þeim sem aðhyllast vegan-lífsstíl enda er mjólkin hrein og klár dýraafurð.

Að auki eru fjölmargir sem ekki þola mjólk, annað hvort með óþol og melta ekki mjólkursykurinn eða með ofnæmi og bregðast illa við mjólkurprótínunum. Þar af leiðandi hafa fjölmörg mjólkurafbrigði komið á markað sem eru auðvitað ekki raunverulegar mjólkurvörur heldur byggja á soya-baunum eða hnetum eða öðru. Slíkir staðgenglar mjólkur henta vel vegan fólki, þó margir horfi á gömlu mjólkurfernuna eða ostinn með trega í hjarta.

En nú er nýr möguleiki að opnast fyrir þá sem ekki vilja neyta dýraafurða en þrá samt mjólkurglas fyrir háttinn, því samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækinu Perfect Day hefur þeim tekist að framleiða mjólk með því að nota erfðabreyttan gersvepp. Gersveppurinn tjáir casein, mjólkurprótín, sem er svo blandað saman við plöntufitu og sykrur til að búa til vökva sem lítur út og bragðast eins og kúamjólk. Þar sem notast er við sykrur úr plöntum er mjólkin laktósafrí svo hún hentar vel fyrir þá sem eru með mjólkuróþol.

Enn sem komið er hafa rannsóknir fyrirtækisins ekki verið birt í ritrýndu tímariti en samkvæmt fullyrðingum fyrirtækisins kostar framleiðsla sem þessi umhverfið mun minna en hefðbundin mjólkurframleiðsla. Þessi framleiðsla losa mun minna af kolefni útí andrúmsloftið og auk þess dregur þetta stórlega úr notkun vatns, sem einnig er í miklu magni við framleiðslu soyamjólkur og slíkra afurða.

Það verður spennandi að sjá hvort þessi mjólk mun fljótlega koma á markað. Hún verður a.ö.l. fyrsti kostur þeirra sem vilja spara umhverfinu og dýrunum þá áþján að framleiða mjólk.