Mynd: Endicott Furniture
Mynd: Endicott Furniture

Af augljósum ástæðum líkar nútímamanninum vel að hafa húsgögn húðuð með efnum sem hindra útbreiðslu elds. þessi efni bera m.a. nafnið plýbróminað dífenýl eter (PBDE). Þessi efni umlykja húsgagnið eru ekki bundin föst við það og þau losna því smátt og smátt útí sitt nánasta umhverfi. Efnin eru þess vegna til staðar í ryki inná heimilum svo dæmi séu nefnd.

FJölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á efninu sem sýna áhrif þess á börn, má þar nefna tengsl PBDE og lægri greindarvísitölu sem benda til þess að efnin séu ekki alveg eins örugg og við myndum vilja. Notkun á PBDE var hætt árið 2004 en samt sem áður er efnið enn í miklu magni í umhverfi okkar, skiljanlega þar sem fæstir hafa endurnýjað alla búslóðina á einu bretti síðastliðin 10 ár. Nýjasta rannsóknin sem birt hefur verið um áhrif þessara efna var framkvæmd við Columbia University og var birt í Neurotoxicology and Teratology í síðasta mánuði.

Þar kemur í ljós að börn sem hafa komist í snertingu við efnið í móðurkviði geta átt í erfiðleikum með að halda athygli. Tekið var sýni úr naflastrengsblóði þegar börnin fæddust til að meta styrk efna á borð við PBDE. Síðan var fylgst með börnunum og þroska þeirra til sjö ára aldurs. Marktækt fleiri mæður, með háan styrk PBDE í naflastrengsblóði, sögðu börnin sín vera erfið í hegðun, sem lýsti sér m.a. með stuttum athyglistíma og trega barnsins til að vera kyrrt.

Þessi rannsókn styrkir enn frekar þá ákvörðun að hætta að nota PBDE sem varnarefni. Því miður er efnið enn til staðar í umhverfum okkar í einhverju magni og miklar líkur á því að fólk innbyrði efnið á einhvern hátt. Styrkur efnisins í kringum okkur fer þó minnkandi með hverju árinu sem líður.