Mynd: Diet Insight
Mynd: Diet Insight

Það er gömul saga og ný að þeir sem fara í stranga megrun eiga það til að bæta aukakílóunum á sig aftur um leið og megruninni líkur og oft verður þyngdaraukningin meiri en þyngdartapið var. Margir hafa velt fyrir sér hver ástæðan er fyrir þessari miklu þyngdaraukningu eftir megrun og hafa tilgáturnar verið æði margar. Ein þeirra segir að með því að svelta líkamann með megrun og byrja svo aftur að borða eins og hefðbundið er, séum við að segja líkamanum að matarframboð sé óstöðugt og því mikilvægt fyrir líkamann að eiga smá forða uppá að hlaupa fyrir mögru árin.

Nú hefur rannsókn sem unnin var við University of Exeter sýnt fram á að sú tilgáta sem nefnd er hér að framan er líklegast rétt. Í rannsókninni var unnið með dýr sem úti í náttúrunni upplifa sveiflur í matarframboði, svo sem minni aðgang að mat að vetri til. Þessi dýr bregða á það ráð, þegar matarframboðssveiflur eru búnar til í umhverfi þeirra, að safna fituforða til að eiga inni orku þegar kemur að matarskorti.

Þetta kemur fólki kannski ekki á óvart, enda er þessi aðferð nokkuð klók séð frá þróunarfræðilegu sjónarhorni. Það eru mun meiri líkur á því að einstaklingur sem á forða fyrir erfiða tíma, lifi af.

Svo hver er rétta leiðin til að grenna sig ef ekki megrun? Því miður þá er það þannig að góðir hlutir gerast hægt og til að grennast er líklega réttasta leiðin að minnka orkuinntökuna hægt og þétt, en þó aðallega að hreyfa sig líka. Enda er öllum hollt að hreyfa sig hvort sem tilgangurinn er að grennast eða bara styrkja líkama og sál.