Síðastliðin misseri hafa furðulegar myndir hrist rækilega upp í notendum internetsins. Við munum t.d. mörg eftir bláa kjólnum og Einstein/Monroe myndbandinu.

Nú hefur enn eitt fyrirbærið skotið upp kollinum. Í þetta sinn eru það tvær myndir sem sýna nákvæmlega sama myndefni.

Mynd: Imgur

Þrátt fyrir að um sé að ræða sömu myndina sem kemur fyrir tvisvar finnst okkur flestum að þarna hljóti að vera um að ræða tvær myndir, teknar af sömu götunni, en frá mismunandi sjónarhorni.

Þegar myndirnar eru lagðar hvor yfir aðra sést að þrátt fyrir það sem okkur finnst….

Mynd: Reddit user Shroffinator

þá er hér um nákvæmlega sömu mynd að ræða.

Mynd: Reddit user Shroffinator

Myndin kveikir nefnilega á sömu skynvillu og þessi hér:

Mynd: Fibonacci/Wikimedia Commons

Þó láréttu línurnar séu allar samsíða og myndi þannig jafnbreiða dálka, þá túlkar heilinn það sem svo að þær séu örlítið skakkar vegna þess hvernig lóðréttu línurnar skarast.

Götumyndin hér fyrir ofan er ekki jafneinföld og þessi með svörtu og hvítum ferningunum, en við erum þrátt fyrir það líklega að túlka götuhellurnar á myndinni á sambærilegan hátt þegar kemur að þessum myndum.

Allt er þetta hinu dásamlega líffæri heilanum að kenna – er hann ekki magnaður?