Mynd: Eco-Office Gals
Mynd: Eco-Office Gals

Það geta verið mikil átök að hefja aftur störf á nýju ári. Hátíðarhöldin sem eru nýafstaðin hafa tekið sinn toll, sérstaklega þegar líkaminn er orðinn vandur hinu ljúfa lífi sem felur í sér svefn fram að hádegi og lágmarks líkamleg átök. En til að reyna að gera fyrstu vinnuvikuna bærilegri er hægt að framkvæma ákveðna hluti sem hjálpa okkur að komast á rétt ról. Einn þessara hluta er jafn einfaldur og ferskt loft.

Ný bandaríks rannsókn, sem birtist í Environmental Health Perspectives, gefur til kynna að ferskt loft sé mikilvægara en við vissum, þ.e.a.s. andrúmsloftið sem við öndum að okkur í vinnunni gæti verið of mettað af koldíoxíði. Það er sennilega villandi að segja að styrkur koldíoxíðs í andrúmslofti á skrifstofum sé of hár. Hið rétta er að viðmiðunarmörk koldíoxíðs í andrúmslofti gætu verið of lág. Í rannsókninni sem vísað er í hér að framan voru 24 sjálfboðaliðar látnir þreyta próf sem sagði til um vitsmunagetu þeirra í þremur mismunandi koldíoxíðsstyrkjum, 550 ppm, 945 ppm og 1440 ppm. 550 ppm er sennilega sá styrkur sem búast mætti við utandyra, 945 ppm er að meðaltali sá styrkur sem fyrirfinnst í skrifstofurými en þó finnast dæmi þar sem styrkurinn fer uppí 1440 ppm, til viðmiðunar má geta þess að þegar koldíoxíð fer yfir 5000 ppm er það talið heilsuspillandi.

Þegar of mikið koldíoxíð er til staðar í andrúmsloftinu eigum við erfiðara með að hugsa og taka ákvarðanir, það er því kannski ekki nema von að vinnan reynist manni þungbær á köflum. Það var einmitt niðurstaða sjálfboðaliðanna 24, en geta þeirra til að taka ákvarðanir var 50% lakari þegar koldíoxíð var 1440 ppm miðað við 550 ppm. Þegar styrkurinn var 945 ppm var getan heldur ekki góð, eða 15% lakari en við 550 ppm.

Það gæti því aukið afköst starfsmanna að draga úr koldíoxíðstyrk á vinnusvæðinu, en það má gera með því að passa uppá fjölda fólks inní hverju rými, góðum og reglulegum þrifum og svo auðvitað með því að opna gluggann, að minnsta kosti ef vinnurýmið er ekki staðsett við stóra umferðaræð.