Mynd: Gay Asheville Nc
Mynd: Gay Asheville Nc

Mörg okkar eyða mikilli orku snemma á æviskeiðinu í að finna okkur maka. Það er eðlilegt þar sem dýraeðli okkar segir okkur að við verðum á einhverjum tímapunkti að fjölga okkur og félagslegt eðli okkar segir okkur að það sé mikilvægt að framkvæma fjölgunina í samstarfi við maka. Það er augljóst að samfélagið vill að við pörum okkur saman og það að koma í pari auðveldar mjög margar athafnir en hvar er meiri hamingju að finna, í hjónabandi/sambúð eða sem einhleypingur?

Í rannsókn sem kynnt var á American Psychological Association’s 124th Annual Convention í síðustu viku, komu fram punktar sem má segja að stangist á við það sem okkur hefur svo lengi verið tamt. Það var Bella DePaulo, sálfræðingur, sem kynnti hluta af rannsóknum sínum. Hún bendir m.a. á að einhleypir eiga yfirleitt í nánari samböndum við foreldra sína, systkini eða vini en þeir sem eru í sambandi.

Bella segir að helstu ástæður þess að við metum sambúð eða hjónaband framar því að búa einn er sú að samfélagið hefur kennt okkur að það er eðlilegra. Þess vegna vega náin samskipti við foreldra eða systkini ekki jafnþungt og náin samskipti við maka. Að auki veita stjórnvöld í mörgum löndum fólki í hjónaböndum ýmsar ívilnanir sem geta dregið verulega úr fjárhagsáhyggjum fólks. Slíkur ávinningur hefur yfirleitt verið talinn samböndum til framdráttar en í raun og veru er kannski ekki hægt að þakka neinum nánum samskiptum skattaívilnanir eða beinar greiðslur frá ríkinu.

Niðurstaða Bellu er í stuttu máli sú að við eigum það til að túlka niðurstöður varðandi ávinning sambanda útfrá þeim gildum sem okkur hafa verið kennd frá æsku, að það sé betra að vera giftur en einhleypur. Á þessum sama grunni byggist svo sú vorkunn sem margir einleypir mæta vegna hjúskaparstöðu sinnar þegar staðreyndin er sú að margir kjósa raunverulega að búa einir.

Rannsóknir Bellu vekja upp margar áhugaverðar spurningar sem við sem samfélag ættum kannski að velta betur fyrir okkur í stað þess að leyfa forhugmyndum okkar um hjónabönd og sambúð að stjórna því hvernig við túlkum niðurstöður félagslegra rannsókna.