Síðastliðin ár virðast fleiri og fleiri börn greinast með einhverfu. Af þessum orsökum hafa foreldrar, heilbrigðisstarfsfólk, vísindamenn og margir fleiri leitað að ástæðunni fyrir þessari aukningu. Skýringanna er oftast leitað í matarræði eða öðrum umhverfisþáttum og sem dæmi hafa margir tengt saman bólusetningar og einhverfu.
En nýlega hafa tvær rannsóknir verið birtar, önnur unnin í Svíþjóð og hin í Danmörku sem báðar benda til þess að einhverfutilfellum sé ekki raunverulega að fjölga.
Rannsóknirnar voru svipað uppbyggðar, þýðið sem þær náðu yfir voru börn fædd á árunum 1993-2002 (í Svíðþjóð) og einnig börn fædd á árunum 1980-1991 (í Danmörku). Upplýsingum var safnað um börnin og hegðun þeirra í gegnum foreldrana. Þegar foreldrarnir voru spurðir útí hegðun sem í dag er tengd við einhverfu kom í ljós að slík hegðun var til staðar hjá sama hlutfalli barna og greinast með einhverfu í dag. Sem sagt, einhverf börn voru hlutfallslega jafnmörg fyrir 10-30 árum síðan og þau eru í dag, þrátt fyrir það sem oft hefur verið kallað einhverfufaraldurinn sem við okkur blasir í nútímasamfélagi.
Skýringin á þessu er líklegast einfaldlega sú að staðlarnir sem börn þurfa að uppfylla til að teljast einhverf eru betur skilgreindir og auðveldari í greiningu en þeir voru fyrir 30 árum. Nýjar aðferðir og uppgötvanir leiða þannig til þess að fleiri börn fá skilgreiningu á sínum vanda en áður. Þetta gæti einnig þýtt að börn sem eru á einhverfurófi án þess að það hafi mikil áhrif á daglegt líf þeirra eru að fá greiningu sem þau þurfa mögulega ekki á að halda.
Skilaboð höfunda til vísindasamfélagsins eru fyrst og fremst þau að í stað þess að eyða fjármunum og mannafla í að skilgreina hvers vegna holskefla einhverfugreininga gengur yfir, ættum við að beyta orkunni í að skilja einhverfu betur og styðja við bakið á þeim börnum sem þurfa á stuðningi að halda vegna einhverfu sinnar.
Hér má lesa umfjöllun fréttasíðunnar Forbes um rannsóknirnar en einnig er hægt að nálgast umfjöllun The Daily Beast hér.