titan-landing-saturn-moon-huygens-descent

Í leit okkar að lífi á öðrum hnöttum þurfum við að vera opin fyrir því að lífsform okkar er ekki endilega það eina rétta, ef svo má að orði komast. Efnaverkfræðingar við Cornell University í Ithaca, James Stevenson, Jonathan Lunine og Paulette Clancy birtu áhugaverða grein þann 27. febrúar síðastliðinn þar sem þau smíðuðu frumuhimnu sem hefur sömu eiginleika og frumuhimnur sem við þekkjum hér á jörðinni en er samt sem áður gerð úr allt öðrum sameindum.

Frumuhimna eins og við þekkjum hana er tvöfalt tvígæft fitulag. Hún er uppbyggð úr fosfólípíðum. Lípíð eru fituhalar sem eru vatnfælnir og hanga þeir á vatnssæknum haus sem er gerður úr fosfathóp. Lípíðhalarnir snúa saman og því er frumuhimnan með vatnssækið ytra og innra yfirborð. Kenningar eru uppi um að myndun fosfólípíðlagana hafi verið grundvöllur þess að líf varð til á jörðinni vegna þess að þau náðu að pakka sameindum eins og RNA eða DNA saman svo efnahvörfin sem kveikja líf gátu átt sér stað.

Frumuhimnan er vatnssækin á ytra og innra borði og á vatni byggjast efnahvörf sem skapa líf á jörðinni. Fæstar plánetur sem við sjáum í kringum okkur hafa vatn á fljótandi formi svo hugmyndir okkar um líf samræmast líklega ekki því sem getur átt sér stað á öðrum hnöttum.

Fyrirmyndin fyrir tilraun Stevenson, Lunine og Clancy er Titan, tungl Satúrnusar, þar sem fljótandi metan myndar höf. Önnur frumefni sem finnast á Títan eru köfnunarefni (N), kolefni (C) og vetni (H). Þess vegna urðu þessar sameindir fyrir valinu þegar hefja átti byggingu frumuhimnunnar. Saman mynda þessar sameindir akrýlónítríl himnu sem hefur svipaða eiginleika og frumuhimnan. Himnan virðist hafa svipaðan stöðugleika og fosfólípíð himna en einnig svipaðan sveigjanleika.

Mísellur (micells) eða fitukirnin sem myndast með himnunni hafa fengið heitið azotosome. Nafnið vísar í azote sem er franska yfir köfnunarefni og lípósóm, sem eru lípíðkúlur. Næsta skref í þessum skáldsögukenndu rannsóknum væri að athuga hvernig himnan virkar í metani og hvort efnahvörfin sem mynda líf geti átt sér stað.