procrastination6

Af hverju að gera það í dag sem þú getur gert á morgun? Jú, vegna þess að samkvæmt rannsóknarniðurstöðum sálfræðingsins Fuschia M. Sirois og samstarfsfólks við Bishop’s háskóla í Quebec gæti það að fresta sífellt verkefnum haft slæmar afleiðingar fyrir heilsuna.

Nú þegar hafa niðurstöður rannsókna bent til þess að frestunarárátta hafi áhrif á heilsu, til dæmis höfuðverki, meltingavandamál og svefn. Í þessu tilfelli vildi rannsóknarhópurinn skoða hvaða langtímaáhrif frestunarárátta hefur á heilsu okkar.

Í rannsókninni var gengið út frá því að frestunarárátta væri persónleika einkenni frekar en vani. Viðfangsefni rannsóknarinnar voru 980 einstaklingar og var þeim skipt í hópa eftir því hvort þeir væru heilbrigðir eða með háþrýsting og/eða hjarta- og æðasjúkdóma. Einstaklingarnir tóku síðan ýmis próf meðal annars Lay’s General Procrastination scale, skala sem notaður er víða til að mæla frestunaráráttu.

Niðurstöðurnar benda til þess að samband sé á milli þess að glíma við frestunaráráttu og þess að vera með vandamál sem tengjast hjarta- og æðakerfinu. Ekki er rætt um það í greininni hvaða ástæður gætu legið að baki en Melissa Dahl hjá NYMag bendir á að til dæmis gæti verið að þeir sem fresta sífellt verkefnum, líkt og að stunda líkamsrækt eða borða hollann, mat gætu verið líklegri til þess að fá hjartasjúkdóma vegna lífstílsins. Flestir kannast líka við streituna sem getur fylgt því að fresta verkefnum og getur streitan haft áhrif á heilsu, til dæmis bólgusvar líkamans sem getur einmitt stuðlað að hjartasjúkdómum.

Greinina, sem birt var í Journal of Behavioural Medicine, má finna hér.

Heimild: ScienceAlert