Mynd af SaintPetersBlog
Mynd af SaintPetersBlog

Margir halda því fram að þeir búi yfir svokölluðum „gaydar“ eða hæfileikanum til að sjá hverjir eru samkynhneigðir og hverjir ekki. Orðið er samsett úr ensku orðunum gay og radar. „Gaydar“ kemur sér óneitanlega vel þegar haldið er út í þeirri von að hitta herrann eða frúnna sem viðkomandi gæti eytt lífinu með, en hversu nákvæmur er „gaydarinn“?

Rannsókn sem mikið hefur verið vitnað í gefur til kynna að „gaydarinn“ geti verið ansi nákvæmur, svo nákvæmur að einungis ljósmynd dugar til að segja til um kynhneigð fólks. En nýlega birtist grein í The Journal of Sex Research sem sýnir að hugmyndin um innbyggða næmni fyrir samkynhneigð sé úr lausu lofti gripin og þegar málið er hugsað aðeins dýpra er hún jafnvel frekar fordómafull.

Í rannsókninni er sjálfboðaliðum skipt í þrjá hópa, einum hópnum er sagt að „gaydarinn“ sé raunverulegt fyrirbæri sem virkar, öðrum hóp er sagt að „gaydarinn“ sé ekki raunverulegur heldur noti fólk staðalímyndir til að flokka fólk í hópa og þriðji hópurinn fær engar sérstakar upplýsingar um „gaydarinn“. Í ljós kom að þeir sem trúðu því að „gaydar“ væri raunverulegt fyrirbæri voru líklegri til að nota staðalímyndir um samkynhneigð á borð við litaval og klæðaburð til að ákvarða hvort viðkomandi væri samkynhneigður eða ekki. Þetta átti ekki við um hina hópana.

Staðalímyndir eru yfirleitt settar undir neikvæðan hatt og flest erum við sammála um að það er fordómafullt að yfirfæra staðalímyndir á fólk. Er þá einhver ástæða til að gefa þessum hugmyndum lausan tauminn þegar athöfnin fær nafn á borð við „gaydar“?

Staðreyndin er sú að „gaydar“ er ekkert annað en leið okkar til að yfirfæra okkar eigin forhugmyndir um samkynhneigða á fólkið í kringum okkur. Það er ekki bara dónalegt gagnvart samkynhneigðum að flokka þau öll sem eina og sömu týpuna heldur er það líka dónalegt gagnvart einstaklingnum sem við yfirfærum þessar staðalímyndir á og leyfum þess vegna ekki að vera sinn eigin persónuleiki án þess að setja hana í ákveðinn flokk.