office temp

Vinnur þú á blönduðum vinnustað þar sem hitastigið er aldrei rétt? Konunum virðist alltaf vera kalt meðan karlarnir virðast alltaf geta verið á stuttermabol. Þú ert ekki ein/n um þetta, þetta „vandamál“ er vel þekkt og nú einnig vel skilgreint.

Loftræstingarkerfi snúast um að halda loftinu hreinu um leið og það heldur hitastiginu stöðugu. Staða hitastigsins er engin tilviljun heldur eru flest loftræstikerfi stillt á hitastig sem hefur verið notað í áraraðir og reiknað út meðal annars útfrá stöðguleika loftsins og þeirri orku sem starfsmennirnir gefa frá sér og leggur þannig til varmans. Þetta staðlaða hitastig er hins vegar eldgamalt, það varð til einhvern tíman í kringum 1960, þá voru karlar í mun hærra hlutfalli inná vinnumarkaðnum og störfin meira af líkamlegum toga

Staðallinn sem við notumst við byggir því að forsendum sem því miður virðast vera brostnar. Til að byrja með hefur konum fjölgað mikið á vinnumarkaðnum. Konur, samanborið við karla, hafa lægri grunnbrennslu, þær hafa að meðaltali minni vöðvamassa og meiri fitumassa sem gerir það að verkum að þær búa til minni hita. Störfin sem unnin eru í dag snúast að miklu leiti um vinnu við tölvur. Það kostar ekki margar kaloríur að sitja við skirfborð og pikka á lyklaborð, að minnsta kosti miklu færri kaloríur en það kostar að vinna líkamlega erfiðisvinnu.

Það bendir því allt til þess að við þurfum að endurskoða loftræstikerfin okkar og jafnvel hækka hitastigið um eins og eina gráðu, það sparar mörgum konum daglegt nefrennsli og gefur mörgum körlum tækifæri til að ganga í peysum sem þeir hafa kannski keypt sér í einhverju bríeríi.

Hægt er að lesa samantekt Buisness Insider um málið hér