Breakfast

Sú mýta hefur lengi verið við líði að morgunmatur sé mikilvægasta máltíð dagins, margir sérfræðingar ganga jafnvel svo langt að segja að það að sleppa morgunmat jafngildi því að fitna og einkaþjálfarar gefa skjólstæðingum sínum strangar leiðbeiningar um hvernig morgunmaturinn á að vera samsettur.

Þessar staðhæfingar eru ekki alveg úr lausu lofti gripnar, en rannsóknir þar sem fylgst er með stórum hópi fólks gefa til kynna að þeir sem ekki borði morgunmat séu yfirleitt í meiri hættu á að bæta á sig en þeir sem borða morgunmat. Nýleg rannsókn, þar sem ekki er fylgst með hegðun fólks, heldur er þátttakendum skipt í nokkra hópa sem hver um sig fær fyrirmæli um ákveðna hegðun varðandi morgunmat, gefa allt aðra mynd á þá þekkingu sem við héldum að væri til staðar varðandi matarvenjur fólks á morgnanna.

Í rannsókninni sem birtist í Journal of Nutritional Science var 36 þátttakendum, sem allir voru í yfirvigt, skipt í 3 hópa. Einn hópurinn fær hafragraut, einn hópurinn kornflex og sá þriðji fær engan morgunverð. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman hvernig morgunverð væri best að snæða.

Niðurstöðurnar komu þó á óvart þar sem lítill munur virtist vera á helstu heilsufarsþáttum, eins og blóðþrýsingu eða kólesteróli í blóði, þegar kornklex og harfragrautar hóparnir voru bornir saman. Hins vegar léttist morgunverðarlausi hópurinn marktækt meira en þeir sem borðuðu hafragraut eða kornflex. Þar með er þó ekki öll sagan sögð því kólesterólið í þessum sama hópi hækkaði líka að meðaltali meira en í hinum hópunum.

Mögulega hefur morgunmatur ekki jafnmikið að segja um þyngd okkar og áður hefur verið talið, en það verður líka að taka með í reikninginn að heilsa okkar skiptir miklu meira máli en ummálið á mittinu. Rannsóknum á þessu sviði er langt því frá lokið og verður áhugavert að fylgjast með breytingum sem gætu orðið á ráðleggingum sérfræðinga á matarræði.