person-woman-eyes-face

Staðhæfingum um kynin og muninum á þeim er oft fleygt fram í hálfkæringi, „konur eru verri bílstjórar“, „karlar geta ekki gert meira en einn hlut í einu“ og svona mætti lengi telja. Oft liggur ekkert að baki þessum staðhæfingum annað en tilfinning þess sem staðhæfir. Þess vegna hafa vísindamenn einstaklega gaman af því að skoða hvort raunverulegur munur sést á kynjunum.

Rannsóknarhópur við Queen Mary University of Londin nýtti sér sjálfboðaliða á The Science Museum í London til að skilgreina hvernig fólk les andlit. Rannsóknin gekk útá að taka þátt í nokkurs konar skype samtali við nokkra leikara. Á meðan samtalinu stóð voru augnhreyfingar þátttakenda myndaðar og síðan var lesið í það á hvað fólk horfði helst.

Í ljós kom að marktækur munur er á því hvernig kynin sjá andlit. Konur horfa t.a.m. meira á vinstri vanga þess sem talað er við. Munurinn var svo skýr að með því að lesa í hegðun þátttakenda gat rannsóknarhópurinn sagt til um það hvors kyns einstaklingurinn var.

Þessar niðurstöður eru ekki bara skemmtilegar útfrá kynjafræðilegu sjónarhorni heldur geta þær reynst dýrmætar frá læknisfræðilegu sjónarhorni, sem dæmi geta munstur sem þessi hjálpað til við greiningu á einhverfu eða öðrum röskunum sem hafa áhrif á atferli.