high energy food

Í nútímasamfélagi getur verið krefjandi að stunda vinnu, sinna fjölskyldu og vinum ásamt því að viðhalda hollum lífsstíl eins og að borða rétt og hreyfa sig. Auknum kröfum fylgja nefnilega ekki fleiri klukkustundir. Það fer því oft svo að til að ná að framkvæma allt sem við viljum framkvæma, þá klippum við á svefntíman okkar. Ný rannsókn bendir þó til þess að vilji maður koma í veg fyrir fitusöfnun gæti borgað sig að leggja meiri áherslu á að fara snemma í háttinn en að fara út að hlaupa.

Það er mikilvægt að borða til að fá orku en oft virðist vera erfitt að hafa stjórn á því hversu mikillar orku er neytt. Of mikil orkuinntaka getur leitt til heilsufarsvandamála eins og sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma eða offitu. Svarið við þessu er oft að reyna að beina fólki að sérstöku matarræði en stundum dugar góður vilji ekki til þar sem margt fleira spilar inní áthegðun okkar.

Athöfnin að borða stjórnast af líffræðilegum þáttum eins og hormónum, andlegri líðan og einnig umhverfisþáttum eins auglýsingum. Þegar við erum þreytt þá túlkar líkaminn það oft sem orkuskort, og kallar þess vegna eftir meiri mat. Að auki truflar þeytan seitun hormónsins sem stjórnar matarinntöku. Þar með er ekki öll sagan sögð því þreyta hefur líka áhrif á tilfinningar okkar sem eru einnig tengdar matarinntöku, tilfinningar geta haft mikil áhrif á hvaða mat við veljum okkur og hversu yfirvegaðar ákvarðanir við tökum varðandi matinn okkar.

Það er því greinilegt að heilbrigðum lífsstíl verður að fylgja reglulegur og góður svefn. Aðilar sem veita meðferð við vandamálum tengdum ofáti ættu að taka það inní myndina við meðhöndlun á fólki, þar sem áhrifa þreytu gætir á fleiri en einn hátt í matarinntöku okkar.

Rannsóknin var birt í Journal of Health Psychology og var unnin af Alyssa Lundahl og Timothy D Nelson við University of Nebraska–Lincoln í Bandaríkjunum.